Handbolti

Aron fer vel af stað í Danmörku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Pálmarsson fer vel af stað með Álaborg.
Aron Pálmarsson fer vel af stað með Álaborg. vísir/vilhelm

Aron Pálmarsson og félagar hans í Álaborg áttu ekki í miklum vandræðum með að vinna Midtjylland, 29-36, í dönsku bikarkeppninni í handbolta í dag.

Midtjylland byrjaði leikinn betur og komst mest fjórum mörkum yfir. Um miðbik fyrri hálfleiks vöknuðu leikmenn Álaborgar til lífsins og þeir leiddu í hálfleik, 16-18.

Í seinni hálfleik kom getumunurinn á liðunum svo bersýnilega í ljós. Álaborg náði góðu forskoti og hélt því án mikilla vandræða. Á endanum munaði sjö mörkum á liðunum, 29-36.

Aron skoraði þrjú mörk fyrir Álaborg í sínum öðrum keppnisleik með liðinu. Á miðvikudaginn vann Álaborg Mors-Thy í danska ofurbikarnum, 33-25. Aron skoraði eitt mark í leiknum en gaf fjölmargar stoðsendingar.

Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar sem hefur safnað saman í sannkallað ofurlið. Og það veikist ekkert næsta sumar þegar Mikkel Hansen gengur í raðir þess.

Jonas Samuelsson var markahæstur í liði Álaborgar í dag með sjö mörk og Sebastian Barthold skoraði fimm mörk. 

Næsti leikur Álaborgar er gegn SønderjyskE á útivelli í 1. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×