Viðskipti innlent

Tekjur Íslendinga: Vigdís sú eina á topp tíu með körlunum

Árni Sæberg skrifar
Vigdís Finnbogadóttir var forseti Íslands frá árinu 1980 til 1996 eða í fjögur kjörtímabil.
Vigdís Finnbogadóttir var forseti Íslands frá árinu 1980 til 1996 eða í fjögur kjörtímabil. Vísir/Vilhelm

Óskar Sesar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ber höfuð og herðar yfir aðra embættismenn og forstjóra ríkisfyrirtækja hvað varðar tekjur. Samkvæmt nýútkomnu Tekjublaði Frjálsrar Verslunar var Óskar Sesar með rúmlega sex milljónir króna í mánaðartekjur í fyrra. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands er eina konan á topp tíu listanum.

Næsttekjuhæsti embættismaðurinn er Magnús Þór Ásmundsson, hafnarstjóri Faxaflóahafna, en hann hafði rúmar fjórar milljónir á mánuði í tekjur. Magnús tók við starfi hafnarstjóra um mitt ár 2020 en hafði þar áður verið forstjóri Fjarðaráls.

Óskar Sesar Reykdalsson var langtekjuhæstur forstjóra ríkisfyrirtækja í fyrra.Vísir/Vilhelm

Þriðja sæti listans vermir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, en hann þénaði um 3,7 milljónir á mánuði í fyrra. 2020 var ellefta ár Harðar í forstjórastólnum.

Í fjórða sæti er Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia með þrjár milljónir á mánuði. Sveinbjörn var ráðinn forstjóri árið 2019 en hafði verið fjármálastjóri fyrirtækisins þar áður.

Hörður er með 3,7 milljónir á mánuði í tekjur samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar.Vísir/Vilhelm

Sá eini í efstu fimm sætum listans sem ekki er yfir sinni stofnun er Tómas Örn Kristinsson, sérfræðingur hjá Ríkissáttasemjara. Tómas var ráðinn til Ríkissáttasemjara í apríl 2020 eftir tveggja áratuga starf hjá Seðlabankanum.

Topp tíu listann má sjá að neðan en þar má aðeins finna eina konu. Á topp tíu listanum yfir forstjóra fyrirtækja í einkageiranum er engin kona.

Tíu tekjuhæstu embættismenn og forstjórar ríkisfyrirtækja árið 2020

  1. Óskar Sesar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 6.100
  2. Magnús Þór Ásmundsson, hafnarstjóri Faxaflóahafna 4.112
  3. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar 3.730
  4. Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia 3.052
  5. Tómas Örn Kristinsson, sérfræðingur hjá Ríkissáttasemjara 2.876
  6. Sigurður Erlingsson, sparisjóðsstóri sparisjóðs Suður Þingeyinga 2.715
  7. Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri 2.702
  8. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala 2.608
  9. Kolbeinn Árnason, skrifstofustjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis 2.585
  10. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands 2.582

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í gær en rétt er að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019 sem var greiddur árið 2020.

Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá en í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, til dæmis af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Þá ber að hafa í huga að inn í tekjunum geta líka verið einskiptisgreiðslur vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.


Tengdar fréttir

Tekjur Íslendinga: Hafþór Júlíus mokaði inn milljónum

Aflraunamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson þénaði hátt í tíu milljónir króna á mánuði á síðasta ári og var langtekjuhæstur í hópi íþróttamanna og þjálfara á Íslandi, samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar.

Tekjur Íslendinga: Onlyfans-stjarna er tekjuhæsti áhrifavaldurinn

Samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar Verslunar sem kom út í dag þénaði Klara Sif Magnúsdóttir rúmlega eina milljón króna á mánuði árið 2020. Helsta tekjulind Klöru Sifjar er vefsíðan Onlyfans, en hún selur áskrifendum sínum aðgang að erótísku efni í gegnum síðuna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×