Skoðun

Bylting ör­yrkjanna er hafin!

María Pétursdóttir skrifar

Fyrsti hluti: I

Það þarf varla að tiltaka aðkomu Sósíalista að stofnun velferðarkerfisins á sínum tíma en það átti að verða það besta í heimi þannig að þjóðin gæti með stolti sýnt fram á að hún tryggði velferð þeirra veikustu. Samhliða því má sjá uppbyggingu allra þeirra góðu réttlætismála sem hér voru innleidd á síðustu öld svo sem vökulögin, fæðingarorlofið, verkamannabústaðakerfið og fleira en þau hafa nú sætt árásum og jafnvel algjöru niðurbroti af hendi nýfrjálshyggjunnar. Þetta niðurbrot kallar á endurkomu róttæks sósíalísks flokks sem er okkur fólkinu nauðsynlegur til að verja velferð okkar og þann jöfnuð sem við ættum að geta búið við í einu af ríkustu löndum veraldar.

Það er óboðlegt með öllu að hér skuli fyrirfinnast barnafátækt og réttindaleysi eða tekjutengingar með fæðingarorlofi sem og öðru sem ætti að þykja sjálfsagt til að tryggja velferð fólks. En ráðamenn í þessu samfélagi leggja ítrekað ofuráherslu á sérhagsmuni hinna fáu í stað almannahagsmuna fjöldans. Þannig hafa Samök atvinnulífsins orðið að grimmlyndri sérhagsmunagæslu einokandi fyrirtækja á markaði sem ráðast að eftirlitsstofnunum og stéttarfélögum í tilraunum til að gera þau vafasöm þegar þau benda réttilega á óeðlilega stjórnarhætti.

Fjármálaráðherra landsins sem kom beinlínis fyrir í Panamaskjölunum og hefur bein tengsl við fyrirtæki í ferðaþjónustu auk tengsla við alltof mörg íslensk stórfyrirtæki hefur ítrekað haldið á lofti orðræðu sem á að gera öryrkja tortryggilega og gefa til kynna að þeir séu tvenns konar, alvöru-öryrkjar og gervi-öryrkjar eða alvöru öryrkjar og öryrkjar sem svindla af því þeir eru ekki í alvörunni óvinnufærir. Þetta er auðvitað merki um gríðarlega vanþekkingu á eðli örorku og jafnvel fátæktarfordómum. Öryrkjar eru nefnilega fjölbreyttur hópur fólks sem er haldið í kafi á niðurlægjandi lágri framfærslu sem dugir ekki út mánuðinn. Framfærslu sem er langt undir vísitöluhækkunum en í dag eru örorkubætur meira en 100 þúsund krónum lægri en lægstu laun á vinnumarkaði. Þó ferlið að innleiðingu starfsgetumats hafi hafist árið 2005 er skemmst frá því að minnast hótunar sem ríkisstjórnin beindi enn og aftur að öryrkjum fyrr á fráfarandi kjörtímabili þegar þeim var gert ljóst að ef þeir samþykktu ekki svokallaðar kerfisbreytingar svo hér mætti innleiða starfsgetumatið í “sátt” við alla þá fengju þeir ekki afnumda krónu á móti krónu skerðingu né myndu frítekjumörk þeirra hækka. Það sjá það því allir sem vilja sjá að öryrkjar hafa búið við algjöra kúgun undir síðustu ríkisstjórn og þeirri sem á undan fór en á meðan Katrín Jakobsdóttir sat í stjórnarandstöðu fór hún stórum og sagði fátækt fólk ekki eiga að þurfa að bíða réttlætisins. Hvernig eiga öryrkjar að treysta stjórnmálaflokkum sem fara svona með valdið?

Hvernig ætla Sósíalistar að bylta stöðu öryrkja?

Í fyrsta lagi ætla Sósíalistar að leiða öryrkja sjálfa að samningaborðinu en það höfum við til dæmis gert nú þegar með því að velja öryrkja í töluverðum mæli á alla framboðslista og til að leiða listann í suðvesturkjördæmi. Eitt af aðalmarkmiðum Sósíalista er í kór við slagorð ÖBÍ um að það sé „ekkert um okkur án okkar”.

Svo að alþingi endurspegli heiðarlega þverskurð samfélagsins þurfa sjö öryrkjar að taka sæti þar. Einhverjir kunna að velta því fyrir sér hvort öryrkjar séu í raun öryrkjar ef þeir geta verið á þingi en ég minni á að þingmennskan er samstarfsverkefni þingflokks og þingmenn hafa varamann sem kalla má inn en varamenn tíðkast annars hvergi annarstaðar á vinnumarkaðnum. Í dag er einnig búið að auka notkun fjarfundartækninnar sem eykur gríðarlega möguleika okkar öryrkja til að stunda hlutastörf eða fjarvinnu svo sem á alþingi Íslendinga.

Hættum að skattleggja fátækt og skerða kjör öryrkja

Þá er grunn markmið Sósíalistaflokksins að jafna kjör fólksins í landinu með áherslu á að hætta að skattleggja fátækt og setja eðlilegan auðlegðarskatt á þá ofurríku auk eðlilegra auðlindagjalda og breyta peningamálastefnu landsins svo við komumst út úr skortstefnu nýfrjálshyggjunnar. Til þess að öryrkjar geti lifað með reisn þurfum við augljóslega að hækka grunn lífeyri og stöðva skerðingarnar. Jafna þarf kjör fólks með skattkerfinu þannig að tekjujöfnun sé réttlát og sama eigi við um alla í þessu samfélagi en öryrkjar, eldri borgarar og atvinnulausir séu ekki teknir út fyrir sviga og haldið niðri eins og nú er raunin. Vinnandi fólk verður ekki fyrir launaskerðingu við það að barnið þeirra verði 18 ára og sama á að gilda um öryrkja. Það viðgengst rífandi óréttlæti innan kerfisins sem verður að laga og það strax. Þá þarf að endurskoða allt almannatryggingakerfið þannig að það sé ekki eins og refsandi vöndur úr Gamla testamentinu heldur raunveruleg almannatrygging þeirra sem ekki ná að sjá sér farborða að fullu og öllu leyti vegna fötlunar eða veikinda.

Höfnum starfsgetumati

Við höfnum starfsgetumati sem nú þegar hefur verið innleitt laumulega og kemur t.d. fram í starfsemi VIRK en þar getur endurhæfing endað með slíku mati sem svo er sent Tryggingastofnun (TR). Enginn fær örorku í dag nema endurhæfing sé að fullu reynd hjá hinum ýmsu endurhæfingabatteríum. TR hefur undanfarin ár skrúfað allverulega fyrir örorkumat hjá veiku fólki með niðurskurði og synjunum, sér í lagi hjá ungu óvinnufæru fólki sem þá endar jafnan á framfæri sveitarfélaga með enn lægri framfærslu en örorkubætur. Ungt fólk á einhverfurófi sem hefur jafnvel þurft stuðning í skólakerfinu og verið í sérdeildum er gjarnan einnig að ganga á þennan vegg synjunar. Þetta er gjarnan gert með svarinu: „Endurhæfing ekki fullreynd” þrátt fyrir að viðkomandi hafi farið í gegnum VIRK eða aðrar endurhæfingastofnanir. Víða erlendis þar sem slíkt mat er stundað eru starfsmenn stofnananna í árangurstengdu starfi og hækka í launum eða stöðu eftir því hver mikið þeim tekst að skera niður örorkuna. Ég óttast að slíkt sé einnig gert á einhvern hátt innan TR í dag en það er verulega óhuggulegt þegar starfsmenn eru látnir vinna óhæfuverk í skjóli þess að vinna fyrir ríkið.

Á sama tíma og landsmönnum á vinnualdri hefur fjölgað, fækkar þeim sem fá metna örorku um tugi prósenta nú á stuttum tíma. Sú stefna og aðferðarfræði sem hér ræður ríkjum er svo efni í heila grein útaf fyrir sig en samhliða þessu er einkarekin og eftirlitslaus endurhæfing að poppa upp hér og hvar í viðskiptum við VIRK á meðan iðjuþjálfun og endurhæfing á vegum hins opinbera er að hverfa. Þá eru reknar hér í einhverskonar mynd endurhæfingar- eða heilsustofnanir að stóru leyti til á fjármagni frá stéttar- og verkalýðsfélögum en um leið og einstaklingur verður örorku að bráð missir hann gjarnan öll sín réttindi til endurhæfingar innan VIRK þar sem hann er orðinn óendurvinnanlegur í augum kerfisins.

Það er nauðsynlegt að skoða aðkomu VIRK að starfsgetumati og niðurskurði í almannatryggingakerfinu og að þeir aðilar sem þar hafa verið í forsvari horfist í augu við sinn þátt í þeirri kúgunarstefnu og þeim afleiðingum sem það hefur haft á veikt fólk. Ríki og sveitarfélög þurfa að vinna markvissar að styttingu vinnuvikunnar, fjölga hlutastörfum og auka sveigjanleika á vinnumarkaði með hækkun lægstu launa svo til verði fleiri hlutastörf sem öryrkjum stæði til boða.

Við vitum ekki hvernig talið verður upp úr kjörkössunum í haust eða hvort Sósíalistar nái samkomulagi við þá flokka eða fólk sem ekki tilheyra auðvaldinu um stjórnarmyndun en við vitum að utanþings hefur Sósíalistum tekist að hreyfa allverulega við umræðunni undanfarin ár og koma málefnum á dagskrá, svo innan þings getum við haft ærandi áhrif hvort heldur í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við öryrkjar þurfum svo sannarlega á því að halda því við verðum að sjá breytingar á okkar kjörum sem fyrst. Setjum því X við J þann 25. september n.k. og hefjum byltinguna!

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokk Íslands og leiðir framboðslista hans í Suðvesturkjördæmi (Kraganum).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×