Körfubolti

Þær frönsku síðastar í undanúrslitin

Valur Páll Eiríksson skrifar
Þær frönsku unnu nauman sigur og mæta Japan í undanúrslitum.
Þær frönsku unnu nauman sigur og mæta Japan í undanúrslitum. Kevin C. Cox/Getty Images

Ljóst er hvaða lið munu mætast í undanúrslitum í körfuboltakeppni kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir að Frakkland vann nauman 67-64 sigur á Spáni í lokaleik 8-liða úrslitanna í dag.

Leikur Spánar og Frakklands var jafn frá upphafi og var staðan 60-57 fyrir Spán þegar skammt var eftir. Þeim frönsku tókst að snúa því við og leiddu 65-64 þegar 17 sekúndur voru eftir. Tvö stig þeirra frönsku af vítalínunni kom þeim þremur stigum yfir en skot Maite Cazorla úr spænska liðinu geigaði á lokasekúndum sem þýddi að sigur Frakklands var vís.

Frakkland mætir heimakonum Japan í undanúrslitum keppninnar á föstudag en Japan lagði Belgíu álíka naumlega, 86-85, í dag. Bandaríkin og Serbía mætast einnig í undanúrslitum. Bandaríkin unnu öruggan 79-55 sigur á Ástralíu en Serbía vann 77-70 sigur á Kína.

Báðir undanúrslitaleikirnir verða á föstudag en úrslitaleikurinn er á lokadegi leikanna, á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×