Handbolti

Kristín og sænsku stöllur hennar í fyrsta sinn í undanúrslit á Ólympíuleikum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristín Þorleifsdóttir skoraði eitt mark gegn Suður-Kóreu.
Kristín Þorleifsdóttir skoraði eitt mark gegn Suður-Kóreu. epa/Juan Carlos Cardenas

Svíþjóð er komið í undanúrslit handboltakeppni kvenna á Ólympíuleikunum í fyrsta sinn eftir sigur á Suður-Kóreu, 39-30. Í undanúrslitunum mæta Svíar Frökkum sem völtuðu yfir heimsmeistara Hollendinga, 32-22.

Í nótt tryggðu Rússar og Norðmenn sér sæti í undanúrslitunum. Öllu minni spenna var í seinni tveimur leikjunum í átta liða úrslitunum og í úrslitin í þeim báðum voru svo gott sem ráðin í hálfleik.

Svíþjóð var átta mörkum yfir í hálfleik gegn Suður-Kóreu, 21-13, og náði mest fjórtán marka forskoti. Suður-kóreska liðið náði aðeins að laga stöðuna undir lokin og á endanum munaði níu mörkum á liðunum, 39-30.

Hin íslenskættaða Kristín Þorleifsdóttir skoraði eitt mark fyrir Svíþjóð. Jamina Roberts, Carin Strömberg og Linn Blohm voru markahæstar í sænska liðinu með sex mörk hver.

Líkt og Svíar voru Frakkar átta mörkum yfir í hálfleik gegn Hollendingum, 19-11. Heimsmeistaranir náðu engu alvöru áhlaupi í seinni hálfleik og sigur Frakklands var afar öruggur, 32-22. 

Laura Flippes skoraði sex mörk fyrir Frakka og Pauletta Foppa fimm.

Undanúrslitaleikirnir fara fram á föstudaginn.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.