Körfubolti

Bræðurnir leggja landsliðsskóna á hilluna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gasol-bræður hafa leikið saman með landsliðinu í yfir 15 ár.
Gasol-bræður hafa leikið saman með landsliðinu í yfir 15 ár. Joaquin Corchero / Europa Press Sports via Getty Images

Bræðurnir Pau og Marc Gasol hafa báðir sagt landsliðsferli sínum í körfubolta lokið eftir tap spænska landsliðsins fyrir því bandaríska á Ólympíuleikunum í nótt. Óvissa ríkir um framtíð beggja með sínum félagsliðum.

Bræðurnir tilkynntu báðir um ákvörðun sína að hætta með landsliðinu eftir 95-81 tap spænska liðsins fyrir Bandaríkjunum í 8-liða úrslitum Ólympíuleikanna í nótt. Báðir eru þeir á meðal betri körfuboltaleikmanna Spánar frá upphafi, sá eldri, Pau, trónir þar á toppnum.

Pau Gasol á glæstan feril að baki í NBA-deildinni þar sem hann lék lengst af með Memphis Grizzlies og Los Angeles Lakers. Hann varð meistari með síðarnefnda liðinu árin 2009 og 2010 og var þá sex sinnum valinn í stjörnuleikinn í deildinni. Hann er 41 árs gamall og lét æskudraum rætast fyrr á þessu ári þegar hann hóf að leika með Barcelona á Spáni, eftir að hafa ekki spilað leik í um tvö ár.

Marc Gasol fór svipaða leið og bróðir sinn þar sem hann lék í ellefu ár með Memphis Grizzlies og er í dag leikmaður Los Angeles Lakers. Hann varð NBA-meistari með Toronto Raptors árið 2019.

Þeir bræður voru báðir hluti af spænska landsliðinu sem vann HM árið 2006 og EM 2009 og 2011. Þá eiga þeir báðir tvö Ólympíusilfur hvor frá 2008 og 2012.

Hvorugur vildi svara spurningum um hvort körfuboltaferillinn væri búinn og það yrði metið næstu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×