Handbolti

Grátleg töp hjá bæði Aroni og Alfreð

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alfreð Gíslason þurfti að þola svekkjandi tap vegna klaufaskaps sinna manna á lokakaflanum.
Alfreð Gíslason þurfti að þola svekkjandi tap vegna klaufaskaps sinna manna á lokakaflanum. EPA/Khaled Elfiqi

Landslið Barein í handbolta, undir stjórn Arons Kristjánssonar, var ævintýralega nálægt sigri, eða að minnsta kosti jafntefli, gegn Svíum í B-riðli handboltakeppnar karla á Ólympíuleikunum í nótt. Sömu sögu er að segja af liði Þýskalands, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar.

Bareinar eru að taka þátt í handknattleikskeppni ÓL í fyrsta sinn og var liðið tveimur mörkum yfir í hálfleik gegn Svíum, 18-16. Þeir viðhéldu þeirri forystu lungann úr síðari hálfleiknum einnig, og voru með 31-29 forskot þegar um sex mínútur lifðu leiks.

Bareinar skoruðu hins vegar ekki meir eftir það. Svíar skelltu í lás, þeir bareinsku fóru á taugum, og þrjú mörk Svía í röð tryggði þeim 32-31 sigur en Albin Lagergren skoraði síðasta mark leiksins þegar um 52 sekúndur voru eftir.

Hampus Lanne fór hamförum í sænska liðinu og skoraði 13 mörk úr 17 tilraunum en hjá Barein var Mohamed Ahmed markahæstur mep sex mörk.

Svipuð saga hjá Þjóðverjum

Alfreð Gíslason, þjálfari Þýskalands, stýrði þeim þýsku gegn Spánverjum í stórleik dagsins í A-riðli keppninnar í morgun. Þar skiptust liðin á forystunni framan af en Þýskaland komst mest þremur mörkum yfir, 10-7, í fyrri hálfleik. Spánverjar jöfnuðu í 12-12 en 13-12 stóð fyrir Þjóðverja í hléi.

Spánverjar hófu síðari hálfleikinn betur og komust 19-16 yfir en Þjóðverjar jöfnuðu leikinn fljótlega á ný. Spennan var þá mikil á lokakaflanum en Þýskaland leiddi 27-26 þegar tvær mínútur voru eftir.

Líkt og Bareinar, þá féllu þeir þýsku á prófinu á lokakaflanum. Þeir fengu á sig ruðning í tveimur sóknum í röð sem Spánverjar refsuðu fyrir með tveimur mörkum til að vinna 28-27 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×