Skoðun

Hvernig gerum við nú í nýrri bylgju?

Ragnar Þór Pétursson skrifar

Þegar þetta er skrifað er nýkomið í ljós að tæplega 60 manns greindust smituð af kórónuveirunni í gær. Við eru komin á kaf í nýja bylgju faraldursins – og það þrátt fyrir að hafa nánast lokið bólusetningu hjá þjóðinni. Í umræðunni má greina mörg stef: vonbrigði, gremju, ótta og furðu.

Skömmu fyrir aldamót skrifaði stjörnufræðingurinn og fræðarinn Carl Sagan eftirfarandi um ótta sinn um fyrirsjáanlega þróun bandarísks samfélags (hér lauslega þýtt af mér):

„Ég hef illt hugboð um Bandaríkin í tíð barna minna og barnabarna ­- þegar landið er þjónustu- og upplýsingahagkerfi; þegar nær allar framleiðslugreinar hafa flust til annarra landa; þegar stórkostleg tækni er á forræði fárra og enginn, sem er í forsvari fyrir almannahag, hefur fullan skilning á málefnunum; þegar fólk hefur tapað hæfni til að sjálfsákvörðunar og réttmætra efasemda um þá sem með valdið fara; þegar við höllum okkur taugaveikluð að stjörnuspám eða kristöllum og greiningarhæfni okkar rýrnar svo að við greinum ekki á milli þess sem er satt og hins sem lætur okkur líða vel. Þá rennum við hægt og hljóðalaust aftur inn í hugarfar hjátrúar og myrkurs. Forheimskun Ameríku sést best í hægfara hnignun upplýsingamiðlunar hinna áhrifamiklu fjölmiðla, grípandi 30 sekúndna hendingar (sem nú eru skroppnar niður í 10 sekúndur eða minna), dagskrárgerð sem höfðar til hins lægsta samnefnara, gagnrýnislaus umfjöllun um hjátrú og gervivísindi en sérstaklega einhverskonar tignun fáviskunnar.“

Í sjálfu sér er ekkert nýtt við það að um miðjan aldur fari fólk að óttast um afdrif heimsins í höndum afkomendanna. Heimsósómi er þrástef í dansi kynslóðanna. Þessi orð beinast þó ekki endilega að næstu kynslóð heldur einmitt þeirri kynslóð sem fór með völdin og fer með þau enn og ákvarðar þannig lífskjör komandi kynslóða. Það má eflaust margt finna að æskunni en fjandinn hafi það ef miðaldra fólk og þaðan af eldra ætlar að klína á næstu kynslóð ábyrgðinni á því hve illa er komið fyrir okkur á mörgum sviðum í dag.

Í tilefni af stöðunni langar mig að ræða þrennt.

Í fyrsta lagi það að líklega sé orðið tímabært að viðurkenna að okkur skortir endanlegar lausnir á ýmsum stærstu áskorunum nútímans. Það skiptir ekki máli hvort horft sé til kórónuveirunnar, loftslagsbreytinga eða hnignunar lýðræðisríkja. Í öllum tilfellum er enn óljóst hvort og hvernig hægt er að afstýra auknum vanda í raun og veru. Það breytir ekki því að við þurfum samt að reyna og beita þeim bestu ráðum á hverjum tíma eins vel og við getum. Sumar af þessum lausnum eru vísindalegar, aðrar ekki. Vísindi eru aðferð en ekki safn af svörum – þau eru oft hægfara og endaslepp en með þrautseigju, þolinmæði og þunga skila þau betri árangri en flestar aðrar leiðir.

Í öðru lagi þurfum við að vilja bera bæði ábyrgð á hugsun okkar og hegðun. Umræðan, á Íslandi sérstaklega, hefur mikið til snúist um það hvenær getum aftur farið að haga okkur eins og við viljum. Þegar athafnafrelsi okkar er skert ætlumst við til þess að fá það eins til baka. Þau áföll og erfiðleikar sem við stöndum frammi fyrir verða að fá okkur til að ígrunda þessi mál, reyna að skilja þau og forðast óraunhæfar væntingar. Óraunhæfar væntingar hafa tilhneigingu til að enda í furðu og gremju. Hér þurfa fjölmiðlar að hjálpa okkur að skilja – en það er ekki nóg. Við verðum að vilja skilja og reyna að skilja.

Í þriðja lagi verðum við að átta okkur á því að við erum samábyrg og verðum að færa fórnir. Á síðasta áratug hefur staða loftslagsmála haldið áfram að versna vegna þess að við viljum öll að einhver önnur leysi vandann í stað okkar.

Hvað veiruna varðar og næstu vikur hér á Íslandi þá verðum við einfaldlega að finna öruggari leiðir til að njóta lífsins en þær hefðbundnu.

Það finnast enn viðkvæmir hópar í íslensku samfélagi sem okkur ber skylda til að verja. Hér má til dæmis nefna fólk sem af heilsufarsástæðum getur ekki þegið bólusetningu.

Haustið er tími barnanna og skólanna. Þannig á það að vera. Við, sem samfélag, verðum að gera það sem við getum við að tryggja ungmennum sem eðlilegast líf næsta vetur. Börn geta smitast og eru ekki varin með bóluefni. Faraldurinn hefur þegar bitnað af miklum þunga á ungu fólki og mun halda áfram að gera það nái veiran enn á ný fótfestu. Ég minni líka á að framlínustarfsfólkið í skólunum er mun líklegra en almenningur til að hafa fengið það bóluefni sem minnsta vörn veitir gegn smiti. Yfirvöld verða að verja þessa hópa, börn og starfsfólk skóla, og miða sóttvarnaraðgerðir næstu vikna að því.

Höfundur er formaður Kennarasambands Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×