Sport

Ástæðan fyrir því að þetta er Bobby Bonilla dagurinn í Bandaríkjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bobby Bonilla fær borgað árlega frá New York Mets  og á enn eftir fjórtán ár af 148 milljónagreiðslu á hverju ári.
Bobby Bonilla fær borgað árlega frá New York Mets  og á enn eftir fjórtán ár af 148 milljónagreiðslu á hverju ári. Getty/George Gojkovich

1. júlí er ávallt frábær dagur fyrir hafnaboltaleikmanninn Bobby Bonilla. Bonilla er reyndar orðinn 58 ára gamall og hætti að spila fyrir tveimur áratugum síðan. Hann fær samt enn borgað fyrir að gera ekki neitt.

Ástæðan er jú ótrúlegur starfslokasamningur Bobby Bonilla við New York Mets liðið sem var gerður í upphafi aldarinnar.

Samkvæmt þeim samningi þá þarf New York Mets að borga honum meira en eina milljón Bandaríkjadala á hverju ári til ársins 2035. Þetta eru samtals 1,19 milljónir dala eða um 148 milljónir íslenskra króna fyrsta dag júlímánaðar á hverju ári.

Upphafið af þessu var að Bonilla kom til Mets í skiptum frá Los Angeles Dodgers fyrir 1999 tímabilið. Hann spilaði eitt tímabil með Mets sem síðan vildi kaupa hann út. Þá skuldaði Mets honum 5,9 milljónir dollara fyrir síðasta ár samningsins.

Umboðsmaður Bonilla bauð Mets upp á það að þeir þyrftu ekki að borga honum strax en þess í stað yrði félagið að borga honum það sem þeir skulduðu honum með vöxtum, dreift á eina greiðslu á ári frá 2011 til 2035.

Forráðamenn Mets samþykktu þetta af því að þeir ætluðu að nota vextina til að eiga fyrir árlegri greiðslu Bonilla. Það er tíu prósent vextina sem fjárglæframaðurinn Bernie Madoff hafði lofað þeim. Madoff var handtekinn fyrir að skipuleggja mesta pýramídasvindl sögunnar og lést í fangelsi fyrr á þessu ári.

Eftir stóð árlega greiðslan og þess vegna fær Bobby Bonilla 148 milljónir inn á reikninginn sinn 1. júlí á hverju ári. Það er líka ástæðan fyrir því að þetta er kallaður Bobby Bonilla dagurinn í Bandaríkjunum.

Það fyndna er að Bonilla spilaði fyrir Atlanta Braves þetta umrædda tímabil og lagði síðan skóna á hilluna eftir 2001 tímabil með St. Louis Cardinals, þá orðinn 38 ára gamall.

Þetta eina tímabil, sem Bonilla spilaði fyrir annað félag, mun kosta New York Mets 29,8 milljónir dollara á endanum eða tæpa 3,7 milljarða íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×