Handbolti

Ómar stóðst stóru áskorunina fullkomlega og fékk samning til fimm ára

Sindri Sverrisson skrifar
Ómar Ingi Magnússon fór á kostum á sinni fyrstu leiktíð í Þýskalandi.
Ómar Ingi Magnússon fór á kostum á sinni fyrstu leiktíð í Þýskalandi. Getty/Uwe Anspach

Degi eftir að Ómar Ingi Magnússon tryggði sér markakóngstitilinn í þýska handboltanum tilkynnti félag hans, Magdeburg, að hann yrði áfram hjá félaginu til ársins 2026.

Ómar skoraði 274 mörk í þýsku 1. deildinni í vetur og Magdeburg hafnaði í 3. sæti, á eftir meisturum Kiel og Flensburg.

Ómar kom til Magdeburg í fyrra frá Álaborg í Danmörku eftir að hafa spilað í dönsku úrvalsdeildinni í fjögur ár. Þessi 24 ára gamla, örvhenta skytta ólst upp á Selfossi og hóf þar ferilinn en lék svo í tvö ár með Val, 2014-2016.

„Það var stór áskorun fyrir mig að koma í þýsku deildina. Ég veit alveg að ég kann að spila handbolta en ég er samt mjög ánægður með það hvernig ég gat hjálpað mínu liði á fyrsta árinu. Ég finn að Magdeburg vill ná langt á næstu árum. Það er sömuleiðis markmið mitt með liðinu,“ sagði Ómar við heimasíðu þýska félagsins sem hann hefur nú samið við til næstu fimm ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×