Skoðun

Gölluð niðurstaða Daða Más

Pétur Hafsteinn Pálsson skrifar

Ég geri þá kröfu til fræðimannsins og frambjóðanda Viðreisnar, Daða Más Kristóferssonar, að hann fari rétt með staðreyndir þótt hann taki þátt í pólitík. Í grein sem hann birtir 24. júní heldur hann því fram að vegna þess að fiskverð í beinum viðskiptum (þegar útgerð og vinnsla eru á sömu hendi) sé ákveðið innan fyrirtækjanna, en ekki með markaðsviðmiðum, séu sjómenn hlunnfarnir um 10 milljarða á ári. Hann segir:

„Það sem við köllum fiskverð er því ekki raunverulegt verð heldur tala sem til verður innan þessara fyrirtækja sem hluti af útreikningi á launum sjómanna”.

Staðreyndin er þessi: Samkvæmt samkomulagi útgerða og sjómanna miðast fiskverð í beinum viðskiptum að jafnaði við 80% af þriggja mánaða vegnu meðalskilaverði íslenskra fiskmarkaða. Markmiðið er að fiskvinnslan greiði um 55% af tekjum sínum til skipsins sem sjómaðurinn á sinn hlut í samkvæmt hlutaskiptakerfinu. Reynist fiskmarkaðsverð ekki vera í takt við afurðaverð, er afurðaverðsvísitala frá Hagstofunni notuð sem vörn. Sú vörn felst í því að hráefnishlutfallið fari ekki yfir 60% og ekki undir 50%. Laun sjómanna eru því bæði gengistryggð og tryggð fyrir breytingum á söluverði afurðanna.

Þetta samkomulag sjómanna og útgerðarmanna hefur gert það að verkum að stærstur hluti þorsks og ýsu er unninn á Íslandi og hægt hefur verið að byggja tæknivæddar fiskvinnslur sem geta keppt við ríkisstyrktar fiskvinnslur í Evrópu. Því miður er ekki sömu sögu að segja um aðrar tegundir, sem í auknum mæli eru fluttar óunnar úr landi. Þeir kaupendur sem áður keyptu þær tegundir á íslenskum fiskmörkuðum hafa flestir lagt upp laupana og afleiðingin er sú að verð á þeim tegundum hefur fallið. Tapi íslenskar fiskvinnslur samkeppnishæfni sinni í þorski og ýsu er hætta á að það sama gerist þar vegna þess að ekkert viðnám verður á Íslandi til að halda uppi verðunum. Það væri því alveg hægt að halda því fram að það form sem notað hefur verið til að ákveða fiskverð í beinum viðskiptum hafi skapað sjómönnum 10 milljarða aukatekjur síðasta áratug, en ekki lækkað þau eins og Daði heldur fram.

Sú umræða hvort betra sé fyrir þjóðina að skattleggja sjávarútveg mikið eða lítið mun halda áfram. En það gildir um þá umræðu rétt eins og umræðuna um kaup og kjör sjómanna, að ef rangar forsendur eru notaðar getur niðurstaðan aldrei orðið önnur en röng. Það á jafnt við fræðimenn sem leikmenn.

Höfundur er framkvæmdastjóri Vísis hf. í Grindavík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×