Handbolti

Ævinlega þakklátur fyrir það hve vel var tekið á móti manni

Sindri Sverrisson skrifar
Árni Bragi Eyjólfsson var bestur í Olís-deildinni í vetur.
Árni Bragi Eyjólfsson var bestur í Olís-deildinni í vetur. Stöð 2 Sport

Árni Bragi Eyjólfsson segist hafa notið sín í „frábæru umhverfi“ á Akureyri en það skilaði sér í því að hann var í dag valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar í handbolta í vetur.

Árni Bragi var auk þess valinn besti sóknarmaður deildarinnar, krýndur markakóngur, hlaut Valdimarsbikarinn sem mikilvægasti leikmaðurinn og háttvísisverðlaunin.

Guðjón Guðmundsson tók Árna Braga tali á verðlaunahófi HSÍ í dag og spurði hann út í þessa miklu velgengni hans í búningi KA:

Klippa: Árni Bragi bestur í vetur og vill titil í Mosó

„Ég var í umhverfi sem ég naut mín rosalega vel í. Allir mínir liðsfélagar, þjálfari og það traust sem ég hef fengið í vetur hefur skilað sér alveg út í gegn. Ég hef fundið fyrir því [traustinu] frá byrjun, lagði á mig það sem ég þurfti að gera og vissi að fólkið í kringum mann hafði trú á manni, og þá skilar maður sínu,“ sagði Árni Bragi sem virtist bara verða betri eftir því sem leið á tímabilið:

„Ég hef oft sagt að ég fúnkeri vel í mikið af leikjum og minna af æfingum… Nei, nei. Það var mikill stígandi og maður fann að maður efldist með hverjum leik. Það besta fyrir leikmann þegar vel gengur er að það sé sem styst í næsta leik. Það gekk vonum framar,“ sagði Árni Bragi.

Guðjón benti á að Árni Bragi hefði ekki verið svona góður með KIF Kolding í dönsku úrvalsdeildinni, þar sem hann lék áður en hann kom til KA í fyrra. Hvað breyttist?

„Það er hárrétt. Þarna kemur að andlegu hliðinni í íþróttunum. Eins og ég segi þá var ég í svo frábæru umhverfi [hjá KA] og fann strax fyrir svo miklu trausti frá Jonna [Jónatani Magnússyni, þjálfara] og öllum í kringum mig, til að láta manni líða vel. Maður blómstrar í því umhverfi sem manni líður vel í.

Ég ætlaði mér stóra hluti í fyrra en komst sjálfur aldrei í gang og svo flautaði Covid mann heim. Þetta komst aldrei á flug, maður fann það snemma, svo ég er ævinlega þakklátur fyrir að hafa fengið menn sem að tóku svona vel á móti manni því það var ekki sjálfsagt,“ sagði Árni Bragi.

Hann hóf meistaraflokksferil sinn með Aftureldingu og snýr aftur í Mosfellsbæinn fyrir næstu leiktíð, tilbúinn í nýja áskorun:

„Ég er ógeðslega spenntur fyrir henni. Mér finnst frábært að hafa getað komið norður og endurgoldið það traust sem KA-menn gáfu mér. Þeir höfðu trú á mér sem þeim leikmanni sem ég var og mér finnst ég hafa skilað því heim. Núna á ég bara eitt eftir og það er hjá hinum uppeldisklúbbnum. Okkur vantar einn titil þar og vonandi kemur hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×