Skoðun

Við verðum að þora að aðgreina samfélagshópa

Þórarinn Hjartarson skrifar

Vistfélagið Þorpið í samstarfi við Reykjavíkurborg hefur öðlast kjark og þor til þess að aðgreina samfélagshópa. Bræðraborgarstígur 1-3 var keyptur á 270 milljónir íslenskra króna og mun koma til með að hýsa “konur sem geta varið efri árunum umkringdar öðrum konum með sömu lífsgildi; feminísma, sjálfbærni og samstöðu.” Loksins er komið úrræði fyrir sérstakan hóp á sérstökum aldri með sérstakar skoðanir.

Þrátt fyrir þrotlausar umræður um jafnrétti er enn langt í land. Hvenær og hvernig ætlum við sem samfélag að takast á við þennan vanda? Svarið er einfalt: Jafnrétti verður náð með aðgreiningu þar sem skapaðar eru sérstakar reglur og kjör fyrir sérstaka hópa.

Hugsjónin á Bræðraborgarstíg er skref í rétta átt. En heillarráð Þorpsins er hins vegar ekki nóg. Við þurfum að spyrja okkur stærri spurninga. Undirritaður kallar eftir því að þessi hugsjón sé yfirfærð á samfélagið í heild sinni. Við þurfum að byggja og niðurgreiða sérstök bæjarfélög fyrir sérstaka hópa. Konur gætu til að mynda búið í bæjarhlutum þar sem þær myndu ekki þurfa að verða fyrir aðkasti fólks með mismunandi skoðanir og takast loks að úthýsa öllum þeim eitruðu hugmyndum sem alla jafna fylgir karlmönnum og karlmennsku. Fólk af mismunandi kynþáttum gætu átt sín eigin hverfi og myndu einungis þurfa að eiga samneyti við fólk af sama uppruna. Áður fyrr gripu Bandaríkjamenn til þess ráðs að skýla ákveðnum hópum fyrir afskiptum annarra hópa. Til þess að ná framförum þurfum við að grípa til viðlíka aðgerða.

Frjáls markaður getur ekki framkallað þessar breytingar. Stjórnvöld þurfa að taka ábyrgð og niðurgreiða húsnæði fyrir hópa sem líkar illa við aðra hópa.

Það er löngu orðið tímabært að ráðast í breytingar. Hugsum stórt. Þorum. Aðgreinum í þágu framfara.

Höfundur er þáttastjórnandi í hlaðvarpinu Ein Pæling



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×