Körfubolti

Boston Celtics tókst að losna við samning Kemba Walker sem fer til OKC

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kemba Walker í leik með Boston Celtics og er hér að spila á móti Kyrie Irving sem er annar bakvörður sem fann sig ekki hjá Celtics.
Kemba Walker í leik með Boston Celtics og er hér að spila á móti Kyrie Irving sem er annar bakvörður sem fann sig ekki hjá Celtics. Getty/Steven Ryan

NBA körfuboltafélaginu Boston Celtics tókst að finna nýjan samastað fyrir Kemba Walker sem flestir töldu að gæti orðið mjög erfitt.

Adrian Wojnarowski hjá ESPN sagði frá því að Kemba Walker fari til Oklahoma City Thunder í skiptum fyrir þá Al Horford og Moses Brown. Boston lætur líka frá sér tvo valrétti þar á meðal sextánda valrétt í nýliðvalinu í sumar en fær í staðinn valrétt í annarri umferð árið 2023.

Al Horford spilaði með Boston liðinu frá 2016 til 2918 en samdi síðan við Philadelphia 76ers í júlí 2019 sem síðan skipti honum til Thunder eftir eitt tímabil.

Kemba Walker samdi við Boston sumarið 2019 en hefur verið mikið meiddur á fyrstu tveimur tímabilum sínum með liðinu. Kemba var með 19,3 stig og 4,9 stoðsendingar í leik í vetur.

Hann átti aftur á móti 73,6 milljónir dollara inni fyrir tvö síðustu ár samningsins sem þótti ekki spennandi fyrir lið á fá í hendurnar. Forráðamenn Thunder voru til í að borga honum það.

Samkvæmt heimildum bandaríska fjölmiðla þá var Kemba Walker jafnánægður með að losna frá Boston Celtics og félagið að losa sig við hann.

Al Horford var með 14,2 stig, 6,7 fráköst og 3,4 stoðsendingar í leik með OKC í vetur en á þremur tímabilum sínum í Boston var hann með 13,5 stig, 7,0 fráköst og 4,6 stoðsendingar í leik.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.