Handbolti

Haukar unnið þrjú Íslandsmeistaraeinvígi gegn Val í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Kristjánsson stýrði Haukum til sigurs á Val í úrslitaeinvíginu 2009 og 2010 og getur endurtekið leikinn í kvöld.
Aron Kristjánsson stýrði Haukum til sigurs á Val í úrslitaeinvíginu 2009 og 2010 og getur endurtekið leikinn í kvöld. vísir/Hulda Margrét

Valur getur orðið Íslandsmeistari í handbolta karla í 23. sinn í kvöld. Þeir þurfa þá að gera nokkuð sem þeir hafa ekki gert síðan 1994; vinna Hauka í úrslitaeinvígi.

Valur er í góðri stöðu eftir þriggja marka sigur í fyrri leiknum gegn Haukum á þriðjudaginn, 32-29. Haukar töpuðu þarna sínum öðrum leik í röð eftir að hafa unnið fimmtán leiki í röð þar á undan.

Sagan er hins vegar á bandi Hauka þegar kemur að úrslitaeinvígum um Íslandsmeistaratitilinn gegn Val. Haukar hafa nefnilega unnið þrjú slík einvígi gegn Val í röð.

Valur og Haukar mættust fyrst í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn 1994. Þar höfðu Valsmenn betur, 3-1. Í liði Vals á þessum tíma voru leikmenn á borð við Ólaf Stefánsson, Dag Sigurðsson, Jón Kristjánsson, Sigfús Sigurðsson og Guðmundur Hrafnkelsson. Þetta var annar Íslandsmeistaratitill Vals af fjórum í röð.

Valur og Haukar mættust einnig í úrslitaeinvíginu 2004. Haukar voru þá miklu sterkari og unnu einvígið, 3-0. Þetta var annar Íslandsmeistaratitill Hauka af þremur í röð. Haukar voru besta lið landsins á þessum tíma og unnu fjórtán af fimmtán leikjum sínum í úrslitakeppninni 2004 og 2005.

Atli Már Báruson var Íslandsmeistari með Val 2007 og getur orðið meistari með hinu liðinu hans séra Friðriks í kvöld.vísir/Hulda Margrét

Haukar og Valur áttust einnig við í úrslitaeinvígunum 2009 og 2010. Haukar höfðu betur í bæði skiptin. Vorið 2009 unnu Haukar, 3-1, og 3-2 árið eftir. Í úrslitaeinvíginu 2010 unnust allir fimm leikirnir á heimavelli en 2009 tryggðu Haukar sér Íslandsmeistaratitilinn með því að vinna átta marka sigur á Hlíðarenda, 25-33.

Í Haukaliðinu 2009 og 2010 voru leikmenn á borð við Tjörva Þorgeirsson og Stefán Rafn Sigurmannsson að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki Hauka. Þeir eru lykilmenn í liðinu í dag.

Aron Kristjánsson var þjálfari Hauka á þessum árum eins og í dag. Hann var einnig leikmaður Hauka í úrslitaeinvíginu 1994.

Sem kunnugt er ræður samanlagður árangur í leikjunum tveimur úrslitum í úrslitakeppninni í gær. Ef liðin verða jöfn vinnur það lið sem skoraði fleiri mörk á útivelli. Ef Haukar vinna leikinn í kvöld 32-29 ráðast úrslitin hins vegar í vítakastkeppni. 

Leikur Hauka og Vals hefst klukkan 19:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Seinni bylgjunnar fyrir leikinn hefst klukkan 18:45.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

Valur er með dýrara lið heldur en Haukar

Valur tók frumkvæðið í fyrri viðureign gegn Haukum í úrslita einvíginu. Leikurinn endaði með þriggja marka sigri Vals 32-29. Aron Kristjánsson þjálfari Hauka var allt annað en sáttur með dómgæsluna í leiknum en gaf þó lítið fyrir það eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×