Körfubolti

NBA dagsins: Kevin Durant sýndi okkur það í nótt að hann er sá besti í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo horfir hér á Kevin Durant fagna en Grikkinn sagði Durant vera besta leikmann heims eftir frammistöðuna með Brooklyn Nets í nótt.
Giannis Antetokounmpo horfir hér á Kevin Durant fagna en Grikkinn sagði Durant vera besta leikmann heims eftir frammistöðuna með Brooklyn Nets í nótt. AP/Kathy Willens

Það er erfitt að finna betri leik í úrslitakeppni NBA deildarinnar en Kevin Durant átti í nótt. Í algjörum lykilleik og þegar liðið hans mætti vængbrotið til leiks steig hann fram og sýndi og sannaði hversu stórbrotinn leikmaður hann er.

Það er ekkert skrýtið að spekingar og aðrir keppist við það að lýsa því yfir að Kevin Durant sé besti körfuboltamaður heims. Þetta var fyrsta alvöru yfirlýsing hans eftir að hann kom til baka eftir hásinarslit.

Kevin Durant var með 49 stiga þrennu í átta stiga sigri á Milwaukee Bucks sem kom Brooklyn Nets í 3-2 Nets liðið vann lokaleikhlutann með tólf stigum þar sem Durant skoraði 20 stig eða aðeins stigi minna en allt Bucks liðið til samans.

„Hann er besti leikmaður í heimi akkúrat núna og við þurfum að vinna hann sem eitt lið,“ sagði Giannis Antetokounmpo sem var með 34 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar fyrir Bucks liðið.

Brooklyn Nets lenti mest sautján stigum undir og saknaði mikið stórstjörnunnar Kyrie Irving. James Harden lék sinn fyrsta leik í einvíginu en var ekki sami Harden og við erum vön að sjá. Þetta stóð því allt og féll með Kevin Durant. Hann brást ekki á úrslitastundu.

Durant var með 17 fráköst og 10 stoðsendingar í leiknum og bauð upp á sjötíu prósent skotnýtingu og 81 prósent vítanýtingu. Þetta er það mesta sem hann hefur skorað, tekið af fráköstum og gefið á stoðsendingum í úrslitakeppninni til þessa. Það kom allt í sama leiknum.

Steve Nash tók Durant aldrei út af í leiknum. „Hvað get ég sagt ykkur. Þetta er engin óskastaða en ef við hefðum ekki spilað honum í 48 mínútur þá hefðum við líklega ekki unnið í kvöld. Þetta var erfið ákvörðun eða frekar auðveld ákvörðun sem var mjög erfið að taka,“ sagði Steve Nash, þjálfari Brooklyn Nets.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá leiknum í nótt en þetta var eini leikur kvöldsins.

Klippa: NBA dagsins (frá 15. júní 2021)
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×