Umfjöllun og viðtöl: Valur - ÍBV 27-29 | Valsmenn héldu út og komust í úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valsmenn fagna í leikslok.
Valsmenn fagna í leikslok. vísir/elín björg

Valur er kominn í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla þrátt fyrir tap gegn ÍBV, 27-29, á heimavelli í kvöld. Valsmenn unnu fyrri leikinn í Eyjum, 25-28, og einvígið samanlagt, 55-54. Valur mætir Haukum í úrslitaeinvíginu sem hefst í næstu viku.

Eyjamenn fengu gullið tækifæri til að tryggja sér sæti í úrslitum en lokasókn þeirra fór forgörðum og Valsmenn fögnuðu þrátt fyrir tveggja marka tap. Þegar uppi var staðið reyndist markið sem Anton Rúnarsson skoraði nánast frá miðju í blálok fyrri leiksins það sem skildi liðin að.

ÍBV var lengst af undir í leiknum í kvöld. En það var alltaf vitað að Eyjamenn kæmu með áhlaup og það kom svo sannarlega. Og þeir komu sér í stöðu til að vinna einvígið en spiluðu illa úr henni.

Finnur Ingi Stefánsson skoraði sex mörk fyrir Val og Róbert Aron Hostert fimm. Martin Nagy varði þrettán skot í marki heimamanna (31 prósent).

Hákon Daði Styrmisson skoraði tíu mörk í sínum síðasta leik fyrir ÍBV í bili en hann er á leið til Gummersbach í Þýskalandi. Petar Jokanovic svaraði fyrir slaka frammistöðu í síðasta leik og varði átján skot í kvöld (41 prósent).

Finnur Ingi Stefánsson skoraði sex mörk úr sjö skotum.vísir/elín björg

Eftir jafnar upphafsmínútur skildu leiðir í stöðunni 5-6. Valsmenn þéttu vörnina og Eyjamenn áttu engin svör í sókninni.

Valur skoraði fimm mörk í röð og komst 10-6 yfir. Staða ÍBV var því orðin ansi dökk enda samtals sjö mörkum undir.

Eini leikmaður ÍBV sem spilaði vel framan af var Jokanovic en hann varði mjög vel í fyrri hálfleik, tíu skot (40 prósent), líkt og Nagy (42 prósent).

Í stöðunni 14-10 virtust Eyjamönnum allar bjargir bannaðar. En þá allt í einu kom smá líf í þá, þeir skoruðu þrjú mörk í röð og minnkuðu muninn í eitt mark, 14-13.

ÍBV minnkaði muninn aftur í eitt mark, 15-14, og fékk tækifæri til að jafna metin. En gestirnir töpuðu boltanum klaufalega og Vignir Stefánsson refsaði með marki úr hraðaupphlaupi. Staðan í hálfleik því 16-14, Val í vil.

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn mun betur og komust mest fjórum mörkum yfir, 21-17. Þá tóku Eyjamenn sig loksins taki, skoruðu fjögur mörk í röð og jöfnuðu metin. Eftir mark frá Fannari Þór Friðgeirssyni komust þeir svo yfir, 21-22, í fyrsta sinn síðan í stöðunni 5-6.

Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði þrjú mörk fyrir ÍBV.vísir/elín björg

Eyjavörnin var gríðarlega sterk á þessum kafla og Valsmenn skoruðu ekki í ellefu mínútur. En eftir þennan vonda kafla skoraði Valur þrjú mörk gegn einu og virtist vera kominn með yfirhöndina.

Liðin skiptust á mörkum næstu mínúturnar en ÍBV átti eitt lokaáhlaup eftir. Dagur Arnarsson kom Eyjamönnum yfir, 26-27, og Hákon Daði bætti svo öðru marki við, 26-28.

Róbert Aron skoraði næsta mark en Theodór Sigurbjörnsson svaraði um hæl, 27-29. Næsta sókn Vals var ráðleysisleg og endaði á því að Róbert Aron tapaði boltanum. Finnur Ingi var þó snöggur til baka og kom í veg fyrir hraðaupphlaup ÍBV.

Eyjamenn áttu samt boltann og tóku leikhlé þegar tólf sekúndur voru eftir. En öfugt við leikinn gegn FH-ingum í átta liða úrslitunum gekk lokasókn Eyjamanna ekki að óskum.

Einar Þorsteinn Ólafsson komst inn í sendingu Fannars Þórs Friðgeirssonar, stal boltanum og sá til þess að Valur komst í úrslit í fyrsta sinn síðan 2017. Lokatölur 27-29, Eyjamönnum í vil en það voru Valsmenn sem fögnuðu í leikslok.

Kátir Valsmenn fagna sætinu í úrslitaeinvíginu.vísir/elín björg

Af hverju vann ÍBV?

Eyjamenn voru ekkert sérstakir lengi vel í leiknum og staða þeirra var orðin mjög snúin. En klisjan um að þeir gefist ekki upp er ekki án innistæðu og áhlaupið sem þeir komu með var svakalegt og hársbreidd frá því að skila þeim í úrslit.

Valsmenn héldu vel á spilunum lengst af en stífnuðu upp undir lokin þegar Eyjamenn þjörmuðu að þeim. Þeir héldu þó út og sluppu fyrir horn.

Eyjamenn voru skiljanlega svekktir í leikslok.vísir/elín björg

Hverjir stóðu upp úr?

Finnur Ingi var öryggið uppmálað í færunum sínum og Róbert Aron skoraði góð mörk. Þá er vert að geta frammistöðu Arnórs Snæs Óskarssonar. Agnar Smári Jónsson var í banni og Arnór fyllti skarð hans með glæsibrag. Einar Þorsteinn var svo flottur í vörninni eins og í síðustu leikjum.

Hákon Daði var langbesti leikmaður ÍBV eins og svo oft á tímabilinu. Hann skoraði tíu mörk, þar af sjö úr hraðaupphlaupum. Kári Kristján Kristjánsson átti einnig frábæran leik á línunni og skoraði sex mörk.

Jokanovic varði mjög vel í fyrri hálfleik, líkt og Nagy. Hann missti dampinn á kafla í seinni hálfleik en kom svo sterkur inn undir lokin á meðan Nagy varði aðeins þrjú skot í seinni hálfleik.

Arnór Snær Óskarsson nýtti tækifærið í fjarveru Agnars Smára Jónssonar vel.vísir/elín björg

Hvað gekk illa?

Dagur Arnarsson gaf fullt af stoðsendingum en skotin hans gengu illa. Sigtryggur Daði Rúnarsson náði sér heldur ekki nógu vel á strik.

Magnús Óli Magnússon var heillum horfinn í liði Vals og fann engan takt í sókninni. Hann þarf að spila miklu betur í úrslitaeinvíginu gegn Haukum en hann gerði í kvöld.

Hvað gerist næst?

Á meðan tímabilinu hjá ÍBV er lokið er Valur kominn í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn gegn Haukum. Fyrri leikur liðanna er á Hlíðarenda 15. júní og sá síðari á Ásvöllum þremur dögum seinna.

Snorri Steinn: Algjör negla hjá Arnóri

Valsmenn mæta Haukum í úrslitaeinvíginu.vísir/elín björg

„Ég man það ekki, örugglega ekki vel,“ svaraði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, aðspurður hvernig honum hefði liðið í lokasókn ÍBV.

Valsmenn voru lengst af í góðri stöðu og um miðbik seinni hálfleiks voru þeir með fjögurra marka forskot.

En hvað gerðist þá?

„Það er erfitt að segja. Við misstum aðeins taktinn og fórum eflaust að horfa á töfluna og verja forskotið. Við gerðum nokkur tæknimistök, þeir gengu á lagið og jöfnuðu mjög fljótt og úr varð leikur,“ svaraði Snorri.

Hann kvaðst heilt yfir sáttur með frammistöðu Vals í leiknum, allavega framan af.

„Jájá, ég var nokkuð ánægður með leikinn fram að 40. mínútu eða svo. Við vorum klárlega ekki nógu góðir undir það síðasta en náðum að sigla þessu heim og varnarleikurinn hjá Einari [Þorsteini Ólafssyni] undir lokin var stórkostlegur,“ sagði Snorri.

Agnar Smári Jónsson tók út leikbann í leiknum í kvöld. Arnór Snær Óskarsson tók stöðu hans í hægri skyttunni og skilaði sínu og gott betur.

„Hann var stórkostlegur. Hann var settur í gríðarlega erfitt hlutverk og hefur ekki spilað neitt svakalega mikið,“ sagði Snorri.

„Að koma inn í svona leik og með þessa frammistöðu var algjör negla, frábært fyrir hann og frábært fyrir okkur. Ég segi ekki að við höfum ekki saknað Agga en við söknuðum hans kannski minna en menn óttuðust.“

Hákon Daði: Þetta er félagið mitt

Hákon Daði Styrmisson var markahæstur á vellinum með tíu mörk.vísir/elín björg

Hákon Daði Styrmisson lék sinn síðasta leik fyrir ÍBV í bili þegar liðið vann Val í kvöld, 27-29. Hann, eins og aðrir Eyjamenn, var samt sár og svekktur í leikslok.

„Ég er gríðarlega svekktur, sérstaklega að enda þetta svona,“ sagði Hákon en sigurinn dugði ÍBV ekki til að komast í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn.

Eyjamenn fengu tækifæri til að komast áfram en glutruðu boltanum frá sér í lokasókn sinni.

„Ef við hefðum skorað hefðum við farið áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Þetta er skemmtilegt fyrirkomulag. Það er stutt í gleðina og stutt í sorgina,“ sagði Hákon. „Ég er svekktur með síðustu sóknina, vissulega.“

Hákon er á förum til Gummersbach í Þýskalandi þar sem hann mun leika undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar. Hann segist skilja vel við ÍBV.

„Ég skildi allt inni á vellinum og utan hans líka. Þetta er félagið mitt og ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa farið hingað og verið þrjú ár hérna áður en ég fer út. Þetta hefur vonandi brúað bilið fyrir atvinnumennskuna og það sem koma skal,“ sagði Hákon að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira