Körfubolti

Gobert í hóp með Mutombo, Ben Wallace og Dwight Howard

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rudy Gobert var valinn varnarmaður ársins í NBA 2018, 2019 og 2021.
Rudy Gobert var valinn varnarmaður ársins í NBA 2018, 2019 og 2021. getty/Alex Goodlett

Rudy Gobert, miðherji Utah Jazz, var valinn varnarmaður ársins í NBA í þriðja sinn á síðustu fjórum árum.

Gobert fékk yfirburðakosningu í kjörinu á varnarmanni ársins. Hann fékk 464 atkvæði, 177 atkvæðum meira en Ben Simmons hjá Philadelphia 76ers. Draymond Green, leikmaður Golden State Warriors, var í 3. sæti með 76 atkvæði. Gobert fékk 84 af hundrað mögulegum atkvæðum í fyrsta sæti í kjörinu.

Gobert er fjórði leikmaðurinn í sögu NBA sem hefur verið valinn varnarmaður ársins þrisvar sinnum. Hinir eru Dikembe Mutombo, Ben Wallace og Dwight Howard.

Á þessu tímabili var Gobert með 14,3 stig, 13,5 fráköst og 2,7 varin skot að meðaltali. Hann missti aðeins af einum leik í deildarkeppninni. Gobert var með næstflest fráköst í NBA í vetur og flest varin skot.

Utah fékk á sig 107,2 stig að meðaltali í leik í vetur og var með þriðju bestu vörnina í NBA. Utah var með bestan árangur allra liða í deildinni og sló Memphis Grizzlies, 4-1, úr leik í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar. Utah vann fyrsta leikinn gegn Los Angeles Clippers, 112-109, í undanúrslitunum.

Samherji Goberts, Jordan Clarkson, var valinn sjötti leikmaður ársins í NBA. Búið er að veita öll stærstu verðlaunin fyrir utan nýliða ársins.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.