Innlent

Banda­rískir strandgæslu­liðar í þjálfun við höfn í Reykja­­vík

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Skipið verður opið almenningi á föstudag og laugardag.
Skipið verður opið almenningi á föstudag og laugardag. Vísir/Arnar

Tæplega tvö hundruð ungmenni eru í þjálfun til starfa hjá bandarísku strandgæslunni um borð í tæplega hundrað metra löngu seglskipi sem kom til hafnar í Reykjavík í morgun.

Bandaríska seglskipið Eagle lagði að landi í Reykjavíkurhöfn um hádegisbil í dag. Skipið er notað fyrir þjálfun nýliða í landhelgisgæslu Bandaríkjanna en það heldur til Bermúda í næstu viku.

„Strandgæsluskólinn er í allt um 200 vikna reynsla. En þessar fimm til sex vikur um borð í Eagle fara í að veita þessum ungu langhelgisgæsluliðum fyrstu þjálfun við stýri og á útkikki, auk vélfræði,“ segir Michael Turdo, skipherra á Eagle.

Michael Turdo er skipherra á Eagle.Vísir/Arnar

Sjóliðinn Genzo Mathuas González prísar sig sælan að fá að ferðast með skipinu um höfin sjö.

„Þetta er blessun. Þetta hefur verið erfið en mjög gefandi ferð. Þá þjálfun sem maður fær hér er ekki hægt að fá annars staðar.“

Skipið er hið glæsilegasta og hefur verið haldið í upprunalegt útlit þess en það var byggt árið 1936 og eru 190 manns eru í áhöfn skipsins.

„Til að sigla skipinu þurfum við að hafa rúmlega hundrað manns um borð. Núna erum við með 191 um borð. Að koma öllum seglum upp útheimtir mikla vinnu og við viljum sigla,“ segir Michael.

Genzo Mathuas González er í þjálfun á skipinu.Vísir/Arnar

Skipið er 95 metra langt og er hæsta mastur skipsins í 50 metra hæð. Það er fréttamanni til efs að nemarnir á skipinu séu klæddir í hælaskó, líkt og hún sjálf var þegar hún freistaði þess að klifra upp stigann á mastrinu.

„Að vera þarna uppi klukkan þrjú að nóttu og sjá ekkert nema stjörnurnar, bara vera úti á sjó og njóta reynslunnar,“ segir Genzo.

Skipið verður opið almenningi á föstudaginn frá 12 til 20 og á sunnudag frá klukkan 13 til 18.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×