Körfubolti

Emil Karel: Það er bannað að hika í þessu liði

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Emil Karel Einarsson, fyrirliði Þórs, segir að liðið ætli sér lengra.
Emil Karel Einarsson, fyrirliði Þórs, segir að liðið ætli sér lengra. VÍSIR/BÁRA

Emil Karel Einarsson, fyrirliði Þórs frá Þorlákshöfn, var eðlilega kampakátur eftir stórsigur liðsins gegn Stjörnunni í kvöld. Lokatölur 115-92, en Emil segir að liðið ætli sér lengra.

„Þetta er tíminn til að spila sinn besta körfubolta,“ sagði Emil í leikslok. „Við komum bara vel stemmdir í leikinn og ætluðum bara að virkilega stíga á bensíngjöfina og taka þennan sigur.“

Þórsarar voru að skjóta virkilega vel í kvöld og það virtust allir vera heitir í þeim málum. Emil segir að leikmenn liðsins treysti hver öðrum fullkomlega.

„Ég vil kannski fyrst óska sjómönnum með daginn hérna úr sjávarþorpinu. En við töluðum um það að það er bannað að hika í þessu liði þannig að menn verða að taka skotin þegar þeir eru opnir, sama hver það er.“

„Við treystum allir hver öðrum og gefum eina aukasendingu ef einhver er í betra færi en maður sjálfur. Við höldum því bara áfram og þannig smellur þetta.“

„Við erum með mjög sterka liðsheild. Lalli er náttúrulega bara búinn að vera að þjálfa okkur síðan í ágúst eða júlí. Þetta er svona það sem hann leggur áherslu á og það er eitt af okkar markmiðum að sækja í bakið á andstæðingnum.“

Þórsarar eru nú 2-1 yfir í einvíginu og þurfa því aðeins einn sigur til að tryggja sæti sitt í úrslitum. Emil segir að liðið ætli sér alla leið.

„Við ætlum okkur ekki að ná bara þessum árangri, við ætlum að fara lengra,“ sagði Emil að lokum.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×