Körfubolti

Endur­koma Phila­delphia dugði ekki og At­lanta tók for­ystuna í ein­víginu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. Tim Nwachukwu/Getty Images

Philadelphia 76ers tók á móti Atlanta Hawks í undanúrslitum Austurdeildarinnar í NBA-deildinni í körfubolta í kvöld. Fór það svo að gestirnir unnu leikinn með fjögurra stiga mun, lokatölur 128-124.

Gestirnir byrjuðu vægast sagt með látum og voru 15 stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta. Staðan þá 42-27 og ekki skánaði það fyrir heimamenn í öðrum leikhluta, munurinn orðinn 20 stig í hálfleik og ljóst að Philadelphia þurfti á kraftaverki að halda í síðari hálfleik.

Hægt og rólega tókst heimamönnum að minnka forskot gestanna og var munurinn kominn niður í 10 stig þegar tvær mínútur og 15 sekúndur voru eftir af leiknum. Rúmri mínútu síðar var munurinn kominn niður í fimm stig og Joel Embiid minnkaði muninn í þrjú stig skömmu síðar.

Bogdan Bogdanović setti svo niður risastóra þriggja stiga körfu og kom gestunum sex stigum yfir þegar 41 sekúndu lifði leiks. Lokasekúndur leiksins voru æsispennandi en þegar 14.9 sekúndur voru eftir var staðan orðin 126-119 Hawks í vil.

Embiid og Ben Simmons tókst einhvern veginn að minnka muninn í 126-124 áður en Bogdanović kláraði leikinn af vítalínunni.

Frábær endasprettur 76ers dugði ekki til og Hawks er því komið 1-0 yfir í einvíginu, lokatölur 128-124.

Trae Young var að venju frábær í liði Hawks með 35 stig ásamt því að gefa 10 stoðsendingar. Bogdan Bogdanović og John Collins vor báðir með 21 stig og Clint Capela var með tvöfalda tvennu, 11 stig og tíu fráköst.

Hjá Philadelphia var Embiid með 39 stig, Seth Curry skoraði 21 og Tobias Harris 20 ásamt því að taka tíu fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×