Innlent

Möguleg hræðsla við að lenda á jaðrinum í stærri byggð

Kjartan Kjartansson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Dagný Rósa Úlfarsdóttir, oddviti hreppsnefndar Skagabyggðar.
Dagný Rósa Úlfarsdóttir, oddviti hreppsnefndar Skagabyggðar. Aðsend

Ekkert verður af sameiningu Skagabyggðar, Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps og sveitarfélagsins Skagastrandar eftir að íbúar Skagabyggðar höfnuðu henni í atkvæðagreiðslu í gær. Sjötíu voru á kjörskrá og greiddu 29 atkvæði gegn sameiningu en 24 með.

Dagný Rósa Úlfarsdóttir, oddviti hreppsnefndar Skagabyggðar, segir úrslitin vonbrigði enda hafi sveitarfélögin lagt mikla vinnu í undirbúning undanfarna mánuði.

Þess vegna koma þessar niðurstöður mér og fleirum í nefndinni og íbúum hérna reyndar líka töluvert á óvart og eru vonbrigði. Ég held að það megi ekki leyna því,“ segir hún.

Níutíu og fimm manns búa í Skagabyggð en á sveitarfélagið erfitt með að reka ýmsa grunnþjónustu. Dagný Rósa segir að það kaupi mikla þjónustu af nágrannasveitarfélögunum.

„Við rekum ekki sjálf okkar skóla eða félagsþjónustu eða slíkt. Það er bæði rekið í byggðarsamlögum og í samstarfi við sveitarfélagið Skagaströnd sem felldi reyndar líka. Ég er ekki búin að hugsa þetta neitt mikið lengra því ég hafði það óbilandi trú að þetta yrði nú samþykkt,“ segir oddvitinn.

Aðeins vantaði fimm atkvæði upp á að tillagan væri samþykkt en Dagný Rósa segir að þannig virki lýðræðið og að meirihlutinn ráði. Spurð að því hvers vegna hún telur að tillagan hafi verið felld segir hún ekki vita hvort að einhver ein ástæða hafi búið að baki.

„Það er náttúrulega svosem hræðsla kannski við að verða einhvers konar jaðarbyggð í stærra samfélagi, held ég að það sé fyrst og fremst,“ segir oddvitinn.

Íbúar í Þingeyjarsveit og Skútustaðahrepp samþykktu hins vegar að sameina sveitarfélögin í kosningu sem fór einnig fram í gær. Tæplega tveir af hverjum þremur samþykktu sameininguna í Þingeyjarsveit. 65,2% greiddu sameiningunni atkvæði sitt. Stuðningurinn við sameinginuna var meiri í Skútustaðahreppi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×