Skoðun

Diskóljós á Alþingi

Einar A. Brynjólfsson skrifar

Í gegnum tíðina hafi margir haft orð á því starfshættir Alþingis séu afleitir og er undirritaður í þeim hópi. Meirihlutaræði hefur viðgengist þar svo lengi sem elsta fólk man, en í því felst að langflest þingmál og tillögur minnihlutans (stjórnarandstöðunnar) eru skotin í kaf, alveg óháð efni þeirra. Málin eru einfaldlega „svæfð“ í nefndum eða felld í atkvæðagreiðslu í þingsal. Þetta er svolítið eins og kappleikur milli Þórs og KA eða Vals og KR. Sigur er það sem gildir og það að greiða atkvæði með tillögu minnihlutans, jafnvel þó hún sé góð, jafngildir sjálfsmarki.

Ein hláleg birtingarmynd þessara afleitu vinnubragða kom í ljós fyrir nokkrum dögum þegar stjórnameirihluti þingsins greiddi atkvæði gegn tiltekinni breytingatillögu sem Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, lagði fram. Meirihlutinn ætlaði svo sannarlega ekki að greiða atkvæði með breytingatillögu „andstæðingsins“, og sá ekki einu sinni ástæðu til að kynna sér út á hvað hún gekk.

Jón Þór sá hvert stefndi og gerði grein fyrir tillögunni, einungis væri um smávægilega orðalagsbreytingu að ræða sem lögð væri fram að undirlagi dómsmálaráðuneytisins. Þá kættist þingheimur allur til muna og ljósasjóvið á atkvæðatöflunni tók miklum breytingum, fór sem sagt úr rauðu í grænt.

Afhjúpunin var fullkomin. Þingfólk meirihlutans hirti sem sagt ekki um að kynna sér efni tillögunnar og gerði væntanlega ráð fyrir því að hún hlyti að vera afleit fyrst hún kom frá stjórnarandstæðingi, og Pírata í ofanálag.

Þó diskóljósasjóvið á Alþingi sé skemmtilegt þá færi nú betur á því að þingfólk greiddi atkvæði eftir efni málanna sem til umfjöllunar eru, heldur en að greiða atkvæði gegn tilteknu þingfólki sem leggur málin fram. Var ekki annars meiningin að efla traust almennings á Alþingi?

Höfundur er áhugamaður um bætt vinnubrögð á Alþingi og oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar sem fram fara 25. september næstkomandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×