Körfubolti

Coach K rifar seglin hjá Duke á næsta ári eftir rúma fjóra áratugi í starfi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hinn sigursæli Mike Krzyzewski hættir hjá Duke eftir næsta tímabil.
Hinn sigursæli Mike Krzyzewski hættir hjá Duke eftir næsta tímabil. getty/Andy Lyons

Mike Krzyzewski, sem hefur stýrt körfuboltaliði Duke háskólans í 41 ár, hættir eftir næsta tímabil.

Krzyzewski, eða Coach K eins og hann er jafnan kallaður, hefur fimm sinnum gert Duke að meisturum og enginn þjálfari í sögu bandaríska háskólakörfuboltans hefur unnið fleiri leiki en hann.

Jon Scheyer tekur við Duke eftir næsta tímabil, 2021-22. Hann er aðstoðarþjálfari liðsins og lék með því á árunum 2006-10.

Krzyzewski tók við Duke í mars 1980. Hann hefur tólf sinnum komið liðinu í undanúrslit (Final Four) og unnið fimm titla (1991, 1992, 2001, 2010 og 2015). Krzyzewski hefur stýrt Duke til 1097 sigra en samtals hafa lið hans unnið 1170 leiki í háskólakörfuboltanum sem er met. Áður en hann tók við Duke þjálfaði hann lið bandaríska hersins.

Krzyzewski, sem er 74 ára, stýrði bandaríska landsliðinu á árunum 2005-16 og gerði það þrisvar sinnum að Ólympíumeisturum og tvisvar sinnum að heimsmeisturum.

Krzyzewski hefur fengið ótal tilboð frá liðum í NBA í gegnum tíðina en alltaf haldið tryggð við Duke.

Á síðasta tímabili komst Duke ekki í úrslitakeppnina í fyrsta sinn síðan 1995 en teflir fram mjög sterku liði á næsta tímabili.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.