Körfubolti

LeBron einu tapi frá því að detta fyrr út úr úrslitakeppninni en nokkru sinni áður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers eru með bakið upp við vegg.
LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers eru með bakið upp við vegg. getty/Christian Petersen

Meistarar Los Angeles Lakers eru einu tapi frá því að fara í sumarfrí eftir að hafa lotið í lægra haldi fyrir Phoenix Suns, 115-85, í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt.

LeBron James hefur aldrei fallið úr leik í 1. umferð úrslitakeppninnar á ferlinum en það gæti gerst í ár. Hann skoraði 24 stig fyrir Lakers sem lék án Anthonys Davis í nótt.

Phoenix var miklu sterkari aðilinn í leiknum og hélt Lakers meðal annars í einungis tíu stigum í 2. leikhluta. Devin Booker skoraði þrjátíu stig fyrir Phoenix.

Brooklyn Nets tryggði sér sæti í undanúrslitum með sigri á Boston Celtics, 123-109. Brooklyn vann einvígið 4-1 og mætir Milwaukee Bucks í næstu umferð.

James Harden var með þrefalda tvennu í liði Brooklyn; 34 stig, tíu fráköst og tíu stoðsendingar. Kyrie Irving skoraði 25 stig og Kevin Durant 24. Jayson Tatum var stigahæstur hjá Boston með 32 stig.

Denver Nuggets vann Portland Trail Blazers, 147-140, í tvíframlengdum leik og tók þar með forystuna í einvígi liðanna, 3-2.

Damian Lillard átti stórkostlegan leik fyrir Portland. Hann skoraði 55 stig og setti niður tólf þriggja stiga skot sem er met í úrslitakeppninni. Lillard gaf einnig tíu stoðsendingar.

Nikola Jokic dró vagninn hjá Denver með 38 stig, ellefu fráköst og níu stoðsendingar. Monte Morris skoraði 28 stig af bekknum og Michael Porter skoraði 26 stig og tók tólf fráköst.

Úrslitin í nótt

  • Phoenix 115-85 LA Lakers
  • Brooklyn 123-109 Boston
  • Denver 147-140 Portland

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×