Körfubolti

Fyrsta þrennan í úrslitakeppninni í meira en fjögur ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson var frábær í fyrsta leiknum í Þorlákshöfn og endaði með með þrefalda tvennu, svokallaða þrennu.
Ægir Þór Steinarsson var frábær í fyrsta leiknum í Þorlákshöfn og endaði með með þrefalda tvennu, svokallaða þrennu. Vísir/Bára

Stjörnumaðurinn Ægir Þór Steinarsson var í gærkvöldi með fyrstu þrennuna í úrslitakeppni karla í körfubolta síðan í marsmánuði 2017.

Ægir fór fyrir Stjörnuliðinu sem vann 9 stiga sigur á Þór í Þorlákshöfn, 99-90, en Ægir endaði leikinn með 26 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar.

Þetta er fyrsta þrennan í úrslitakeppninni síðan að Pavel Ermolinskij var með 10 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar 21. mars 2017 í sigri KR á Þór Akureyri í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum.

Það liðu því nákvæmlega 4 ár, 2 mánuðir og 10 dagar á milli þrenna í úrslitakeppninni eða alls 1532 dagar.

Ægir er fyrsti leikmaður Stjörnunnar sem nær þrennu í úrslitakeppni. Ægir er líka aðeins fimmti íslenski leikmaðurinn til að ná þrennu í úrslitakeppni en hinir eru Pavel (6), Damon Johnson (2), Jakob Örn Sigurðarson (1) og Jón Axel Guðmundsson (1).

Ægir átti magnað einvígi í átta liða úrslitunum á móti Grindavík þar sem hann var með 23,8 stig, 10,4 stoðsendingar og 5,8 fráköst að meðaltali í fimm leikjum. Hann fylgdi því eftir með frábærum fyrsta leik í undanúrslitunum.

Ægir hefur náð einni annarri þrennu á Íslandsmótinu í vetur en hann var með 17 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar í sigri á Keflavík í lok janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×