Körfubolti

Chris Paul neitaði að hvíla og leiddi Phoenix til sigurs á meisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chris Paul hafði betur gegn stórvini sínum, LeBron James.
Chris Paul hafði betur gegn stórvini sínum, LeBron James. getty/Sean M. Haffey

Chris Paul og félagar í Phoenix Suns jöfnuðu metin í einvíginu við meistara Los Angels Lakers í átta liða úrslitum Vesturdeildar NBA með 92-100 sigri í Staples Center í gær.

Monty Williams, þjálfari Phoenix, ætlaði að hvíla Paul vegna axlarmeiðsla sem hann glímir við. Leikstjórnandinn fékk þjálfarann hins vegar til að skipta um skoðun og það sem betur fer. 

Paul skoraði átján stig og gaf níu stoðsendingar og leiddi Phoenix til sigurs. Staðan í einvíginu er 2-2 og næsti leikur er í Phoenix. Devin Booker og Jae Crowder skoruðu sautján stig hvor og Deandre Ayton var með fjórtán stig og sautján fráköst.

LeBron James skoraði 25 stig fyrir Lakers, tók tólf fráköst og gaf sex stoðsendingar. Anthony Davis lék ekki seinni hálfleikinn vegna meiðsla.

Brooklyn Nets og Atlanta Hawks eru bæði einum sigri frá sæti í undanúrslitum Austurdeildarinnar með sigra í gær.

Kevin Durant skoraði 42 stig og Kyrie Irving 39 þegar Brooklyn sigraði Boston Celtics, 126-141. James Harden skoraði 23 stig og gaf átján stoðsendingar. Jayson Tatum átti aftur stórleik fyrir Boston og skoraði fjörutíu stig en þau dugðu skammt.

Atlanta vann New York Knicks, 113-96, á heimavelli. Trae Young heldur áfram að spila eins og engill fyrir Atlanta og skilaði 27 stigum og níu stoðsendingum. Julius Randle skoraði 23 stig fyrir Knicks sem verður að vinna næsta leik til að forðast sumarfrí.

Þá jafnaði Los Angels Clippers metin í einvíginu gegn Dallas Mavericks með öruggum 81-106 sigri á útivelli. Clippers hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum í einvíginu.

Kawhi Leonard skoraði 29 stig og tók tíu fráköst í liði Clippers. Luka Doncic skoraði nítján stig fyrir Dallas en hefur oftast spilað betur.

Úrslitin

  • LA Lakers 92-100 Phoenix
  • Boston 126-141 Brooklyn
  • Atlanta 113-96 NY Knicks
  • Dallas 81-106 LA Clippers

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.