Körfubolti

Miami sópað, Was­hington að fara sömu leið, Port­land gefst ekki upp og Utah tók for­ystuna | Mynd­bönd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Giannis mætti með sópinn.
Giannis mætti með sópinn. EPA-EFE/TANNEN MAUR

Fjórir leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Á meðan einu einvígi er lokið og öðru við það að ljúka er allt galopið í hinum tveimur.

Milwaukee Bucks vann þægilegan 17 stiga sigur á Miami Heat, lokatölur 120-103. Þar með hefur Bucks unnið fjóra leiki af fjórum og er komið áfram í undanúrslit Austurdeildarinnar.

Heat fór alla leið í úrslit á síðustu leiktíð en hafa átt erfitt uppdráttar á þessari leiktíð og áttu aldrei möguleika í einvíginu gegn Bucks.

Gríska undrið – Giannis Antetokounmpo – stóð undir nafni en hann bauð upp á þrefalda tvennu í nótt. Hann skoraði 20 stig, gaf 15 stoðsendingar og tók 12 fráköst. Var þetta í fyrsta sinn sem þessi 26 ára gamli leikmaður gerir þrefalda tvennu í úrslitakeppninni.

Khris Middleton skoraði einnig 20 stig og tók 11 fráköst en Brook Lopez var stigahæstur með 25 stig.

Jimmy Butler var með þrefalda tvennu í liði Miami Heat. Butler skoraði aðeins 12 stig en gaf 10 stoðsendingar og tók 10 fráköst. Stigahæstur var Bam Adebayo með 20 stig en hann tók einnig 14 fráköst.

Philedelphia 76ers eru einum sigri frá því að sópa Washington Wizards út úr úrslitakeppninni. Philadelphia vann öruggan 29 stiga sigur í nótt, 132-103.

Joel Embiid fór mikinn í liði 76ers en hann skoraði 36 stig í leiknum. Þeir fimm sem byrjuðu leikinn skoruðu allir 14 stig eða meira. Ben Simmons var með 14 ásamt því að gefa 9 stoðsendingar. Danny Green og Seth Curry skoruðu 15 stig og var Tobias Harris með 20 stig ásamt því að taka 13 fráköst.

Hjá Wizards var Russell Westbrook með enn eina þreföldu tvennuna. Hann skoraði 26 stig, tók 12 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Þá skoraði Bradley Beal 25 stig.

Liðsheildin og frábær varnarleikur sá til þess að Portland Trail Blazers er búin að jafna metin í einvíginu gegn Denver Nuggets. Portland vann leikinn í nótt með 20 stiga mun, 115-95, og staðan því 2-2 í rimmu þessara tveggja öflugu liða.

Damian Lillard var ekki í aðalhlutverki hjá Trail Blazers en hann skoraði aðeins 10 stig. Lillard gaf samt 10 stoðsendingar og tók 8 fráköst. Stigahæstur í liði Trail Blazers var Norman Powell með 29 stig og þar á eftir kom CJ McCollum með 21 stig.

Jókerinn - Nikola Jokić – skoraði 16 stig í liði Denver ásamt því að taka 9 fráköst. Það var snemma ljóst hvað stefndi í og því spilaði bekkur Denver töluvert af mínútum í nótt.

Að lokum vann Utah Jazz tíu stiga sigur, 121-111, á Memphis Grizzlies og leiðir nú 2-1 í seríu liðanna. Frábær byrjun Utah sá til þess að liðið landaði sigri en liðið vann fyrsta leikhluta með 12 stiga mun. Eftir það var leikurinn hníf jafn og ljóst að Memphis ætlar ekkert að leyfa Jazz að rölta inn í undanúrslit Vesturdeildarinnar.

Donovan Mitchell er heldur betur að vinna upp tapaðan tíma en hann sneri til baka í síðasta leik liðanna eftir hafa verið frá í dágóðan tíma. Hann var stigahæstur í liði Utah með 29 stig í leiknum. Þar á eftir kom Mike Conley Jr. með 27 og þá bauð Rudy Gobert upp á tvöfalda tvennu, 15 stig og 14 fráköst.

Ja Morant var að venju allt í öllu í liði Memphis með 28 stig en Dillon Brooks var ekki langt undan með 27 stig.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.