Körfubolti

Færði pabba sínum verðlaun fyrir að vera framfarakóngur NBA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Julius Randle hefur átt hvað stærstan þátt í uppgangi New York Knicks eftir mörg mögur ár.
Julius Randle hefur átt hvað stærstan þátt í uppgangi New York Knicks eftir mörg mögur ár. getty/Sarah Stier

Julius Randle, leikmaður New York Knicks, var valinn framfarakóngur NBA-deildarinnar á þessu tímabili. Hann fékk yfirburðakosningu í valinu.

Sonur Randles, Kyden, afhenti pabba sínum verðlaunin eftir æfingu Knicks-liðsins í gær eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Randle fékk 493 atkvæði í kjörinu. Jerami Grant, leikmaður Detroit Pistons, kom næstur með 140 atkvæði. Aðeins tveir af hundrað sem kusu settu Randle ekki í efsta sætið á lista sínum.

Randle átti sitt langbesta tímabil á ferlinum í vetur. Hann lék alla leiki Knicks í deildarkeppninni nema einn og í þeim var hann með 24,1 stig, 10,2 fráköst og 6,0 stoðsendingar að meðaltali. Hann var með 41,1 prósent þriggja stiga nýtingu.

Á síðasta tímabili var Randle með 19,5 stig, 9,7 fráköst og 3,1 stoðsendingu að meðaltali í leik og 27,7 prósent þriggja stiga nýtingu.

Randle er fyrsti leikmaður Knicks sem fær þessi verðlaun sem voru fyrst veitt fyrir tímabilið 1984-85.

Hinn 26 ára Randle er á sínu sjöunda tímabili í NBA. Hann er annar leikmaðurinn í sögu NBA sem er valinn framfarakóngur á sínu sjöunda tímabili eða síðar í deildinni. Hedo Turkoglu fékk þessi verðlaun á sínu áttunda tímabili í deildinni, 2007-08.

Fyrstu fjögur tímabil sín í NBA lék Randle með Los Angeles Lakers, hann var svo eitt tímabil hjá New Orleans Pelicans áður en hann fór til Knicks 2019.

Knicks lenti í 4. sæti Austurdeildarinnar og komst í úrslitakeppnina í fyrsta sinn í átta ár. Liðið tapaði fyrir Atlanta Hawks, 105-107, í fyrsta leiknum í einvígi liðanna í 1. umferð úrslitakeppninnar. Annar leikurinn fer fram í kvöld og hefst klukkan 23:30.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×