Körfubolti

Öll liðin með þrjátíu stiga liðsfélaga hafa orðið Íslandsmeistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tyler Sabin fékk góða hjálp í stigaskoruninni í þriðja leiknum á móti Val.
Tyler Sabin fékk góða hjálp í stigaskoruninni í þriðja leiknum á móti Val. Vísir/Hulda Margrét

KR varð á sunnudagskvöldið aðeins fjórða liðið í sögu úrslitakeppninnar sem var með innanborðs tvo þrjátíu stiga leikmenn í venjulegum leiktíma. Það hefur heldur betur boðið gott fyrir þessi lið.

Tyler Sabin skoraði 35 stig og Brandon Joseph Nazione var með 33 stig þegar KR-ingar unnu tólf stiga sigur á Val á Hlíðarenda og komust 2-1 yfir í einvígi liðanna.

Þetta eru fyrstu liðsfélagarnir í meira en tíu ár sem skora báðir yfir þrjátíu stig í sama leik í úrslitakeppni.

Þetta hafði ekki gerst síðan 14. apríl 2011 síðan að bæði Marcus Walker og Brynjar Þór Björnsson skoruðu þrjátíu stig í öðrum leik KR og Stjörnunnar í lokaúrslitum.

Tyler Sabin og Brandon Nazione hittu meðal annars úr 9 af 13 þriggja stiga skotum sínum og voru saman með 75prósent skotnýtingu utan af velli (24 af 32) og hundrað prósent vítanýtingu (11 af 11).

Báðir voru þeir félagar með yfir 40 framlagsstig, Sabin með 42 og Nazione með 40. Sabin gaf einnig 11 stoðsendingar í leiknum og Nazione var með 9 fráköst og 4 stoðsendingar.

Þau þrjú lið sem höfðu áður verið með 30 stiga liðsfélaga innanborðs hafa öll þrjú farið alla leið og unnið Íslandsmeistaratitilinn í sömu úrslitakeppni. Því náðu KR-ingar 2011 en einnig Keflavíingar 2003 og Njarðvíkingar 1998.

Tvö önnur lið hafa átt tvo þrjátíu stiga liðsfélaga en í bæði skiptin var um margframlengda leiki að ræða.

Grindavík var með tvo þrjátíu stiga menn í tapi á móti Keflavík í þríframlengdum leik á móti Keflavík í undanúrslitunum 1999.

KR var með tvo þrjátíu stiga menn í sigri á Keflavík í fjórframlengdum leik á móti Keflavík í undanúrslitunum 2009.

  • Lið með 30 stiga liðsfélaga í úrslitakeppni:
  • (Leikir sem fóru ekki í framlengingu)
  • -
  • Njarðvík 1998 (á móti Keflavík í undanúrslitum)
  • Petey Sessoms 33 stig
  • Friðrik Pétur Ragnarsson 32 stig
  • Njarðvík varð Íslandsmeistari
  • Keflavík 2003 (á móti Grindavík í lokaúrslitum)
  •  Damon Johnson 39 stig
  • Edmund Saunders 36 stig
  • Keflavík varð Íslandsmeistari
  • KR 2011 (á móti Stjörnunni í lokaúrslitum)
  • Marcus Walker 34 stig
  • Brynjar Þór Björnsson 32 stig
  • KR varð Íslandsmeistari
  • KR 2021 (á móti Val í átta liða úrslitum)
  • Tyler Sabin 35 stig
  • Brandon Joseph Nazione 33 stig



Fleiri fréttir

Sjá meira


×