Körfubolti

Milwaukee Bucks fyrsta liðið til að komast í 2-0 en Denver jafnaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo treður boltanum í körfuna í sigri Milwaukee Bucks í nótt.
Giannis Antetokounmpo treður boltanum í körfuna í sigri Milwaukee Bucks í nótt. AP/Jeffrey Phelps

Milwaukee Bucks og Denver Nuggets fögnuðu sigri í leikjum sínum í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta í nótt.

Giannis Antetokounmpo var með 31 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar þegar Milwaukee Bucks vann 132-98 sigur á Miami Heat og komst þar með í 2-0 í einvígi liðanna í Austurdeildinni.

Bucks vann fyrsta leikinn í framlengingu en tók öll völd í byrjun leiks í nótt og vann fyrsta leikhlutann 46-20 þar sem liðið skoraði tíu þrista. Eftir það var þessi leikur ekki spennandi. Jrue Holiday var einni stoðsendingu frá því að jafna félagsmet Bucks en hann gaf 15 slíkar auk þess að skora 11 stig og taka 7 fráköst.

Bryn Forbes var óvænt hetja Milwaukee liðsins en hann setti niður sex þrista og skoraði alls 22 stig. Forbes er á fyrsta ári með Milwaukee en lék áður með San Antonio Spurs.

Dewayne Dedmon var stigahæstur hjá Miami með 19 stig en Bam Adebayo var atkvæðamestur byrjunarliðsmanna liðsins með 16 stig. Jimmy Butler skoraði bara 10 stig.

Miami sló óvænt út Milwaukee Bucks í úrslitakeppninni í fyrra en leikmenn Bucks ætla greinilega ekki að láta það endurtaka sig.

Denver Nuggets jafnaði einvígið á móti Portland Trail Blazers með 128-109 sigri. Portland vann fyrsta leikinn á heimavelli Denver en næstu tveir leikir verða síðan á heimavelli Portland.

Það dugði ekki gestunum að aðalstjarna liðsins, Damian Lillard, skoraði níu þriggja stiga körfur og var með 42 stig og 10 stoðsendingar. Lillard var kominn með 32 stig í hálfleik en hann hitti úr 9 af 16 þriggja stiga skotum sínum. CJ McCollum var með 21 stig.

Nikola Jokic var frábær hjá Denver með 38 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar á 31 mínútu. Jokic hitti úr 15 af 20 skotum sínum í leiknum og öllum sex vítunum. Michael Porter Jr. skoraði 18 stig fyrir Denver.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×