Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Þór 27-23 | Slakir Stjörnumenn komust upp í 3. sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjarnan gerði nóg til að vinna Þór í dag.
Stjarnan gerði nóg til að vinna Þór í dag. vísir/hulda margrét

Stjörnumenn unnu sinn annan leik í röð þegar þeir lögðu fallna Þórsara að velli, 27-23, í Mýrinni í 21. og næstsíðustu umferð Olís-deildar karla í dag.

Stjarnan sýndi svo sannarlega ekki sparihliðarnar í leiknum í dag en gerði nóg til að vinna. Með sigrinum komst liðið upp í 3. sæti deildarinnar. Þórsarar eru hins vegar í 11. sætinu og enda þar.

Leikurinn var ekki góð auglýsing fyrir íslenskan handbolta og er auðgleymdur. Liðin gerðu aragrúa mistaka og haugur af dauðafærum fór í súginn. Stjörnumenn hafa verið góðri siglingu eftir síðasta hlé en tóku skref aftur á bak í dag og með svona spilamennsku gera þeir engar rósir í úrslitakeppninni.

Stjörnumenn voru yfir allan tímann en gekk erfiðlega að slíta sig frá seigum Þórsurum sem höfðu ekki að neinu að keppa.

Gestirnir fengu ótal tækifæri til að þjarma almennilega að heimamönnum en gerðu sig seka um ótrúlega mörg mistök í sókninni. Þá strönduðu Þórsarar oftar en ekki á Adam Thorstensen sem átti frábæran leik í marki Stjörnunnar. Hann varði átján skot (44 prósent), þar af þrjú vítaköst. Arnar Þór Fylkisson átti einnig magnaða innkomu í mark Þórs og varði fjórtán skot, eða helming þeirra skota sem hann fékk á sig.

Stjörnumenn bjuggu sér til ágætis forskot seinni hluta fyrri hálfleiks og leiddu með fjórum mörkum að honum loknum, 16-12. Þeir urðu fyrir áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar Tandri Már Konráðsson fékk sína þriðju brottvísun og þar með rautt spjald.

Stjarnan var alltaf með þriggja til fimm marka forskot í seinni hálfleik en Þór gafst ekki upp og hékk inni í leiknum, ekki síst fyrir tilstuðlan Arnars Þórs sem varði eins og óður maður. Því miður fyrir hann dugði það skammt því samherjar hans héldu áfram að gera skyssur í sókninni.

Á endanum munaði fjórum mörkum á liðunum, 27-23. Stjarnan er því í bílstjórasætinu í baráttunni um 3. sæti Olís-deildarinnar og tryggir sér það með sigri á Fram í lokaumferðinni.

Af hverju vann Stjarnan?

Adam varði vel allan leikinn og vörn Stjörnunnar var lengstum góð. Þá skoraði liðið nokkur ódýr mörk eftir hraða miðju í fyrri hálfleik sem reyndust mikilvæg.

Hverjir stóðu upp úr?

Adam var langbesti leikmaður Stjörnunnar eins og áður sagði. Sverrir Eyjólfsson lék einnig vel og skoraði fimm mörk af línunni.

Þórður Tandri Ágústsson, verðandi leikmaður Stjörnunnar, sýndi Garðbæingum við hverju þeir mega búast á næsta tímabili. Hann var öflugur á línunni hjá Þór og skoraði fjögur mörk. Arnar Þór átti svo frábæra innkomu í markið sem fyrr sagði.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Þórs var eins og oft áður í vetur hægur, stirður og ekki árangursríkur. Þórsarar geta staðið vörn og gera það oftast vel en sóknin varð þeim að falli í vetur.

Tandri vill eflaust gleyma þessum leik sem fyrst en hann fékk þrjár brottvísanir í fyrri hálfleik, þar með rautt spjald og horfði á seinni hálfleikinn úr stúkunni. Dagur Gautason náði sér engan veginn á strik í vinstra horninu og klikkaði á fjórum af sex skotum sínum.

Hvað gerist næst?

Í lokaumferðinni á fimmtudaginn fær Stjarnan Fram í heimsókn og þarf sigur til að halda 3. sætinu. Á meðan tekur Þór á móti KA í Akureyrarslag. Það er jafnframt síðasti leikur Þórsara í efstu deild í bili.

Patrekur: Bara lélegur leikur og ég ætla ekkert að fegra það

Patrekur Jóhannesson er viss um að sínir menn spili betur gegn Fram á fimmtudaginn en þeir gerðu gegn Þór í dag.vísir/hulda margrét

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með sigurinn á Þór en fannst spilamennska sinna manna slök.

„Þetta var ekki góður leikur en tvö stig og það er það sem ég er ánægður með. En leikurinn var frekar lélegur,“ sagði Patrekur í leikslok.

Stjörnumenn voru alltaf yfir í leiknum en slitu sig aldrei alveg frá föllnum Þórsurum.

„Þetta er eins og þegar þú spilar gegn ÍR. Þeir eru pressulausir og gera sína hluti, spila langar sóknir. Framan af var einbeiting í þessu en í seinni hálfleik klikkuðum við á ótal dauðafærum,“ sagði Patrekur.

„Þetta var bara lélegur leikur og ég ætla ekkert að fegra það. Við eigum ekki möguleika gegn Fram í næsta leik ef við spilum ekki betur en þetta. Þetta var örugglega lélegasti leikurinn okkar á tímabilinu.“

Adam Thorstensen átti góðan leik í marki Stjörnunnar og varði átján skot, eða 44 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.

„Hann var frábær. Hann á svona leiki og hefur tekið miklum framförum á þessu tímabili. Hann var klárlega ljósi punkturinn og auðvitað að taka stigin tvö. Þetta snýst um það þótt spilamennskan hafi ekki verið merkileg,“ sagði Patrekur.

Með sigrinum í dag komst Stjarnan upp í 3. sæti Olís-deildarinnar og endar þar ef liðið vinnur Fram í lokaumferðinni á fimmtudaginn. Patrekur segir að sínir menn verði að spila betur gegn Frömmurum en í dag og er fullviss um að þeir geri það.

„Ég ætla ekki að mála þetta of svart. Við áttum frábæran leik gegn Val þar sem allt var upp á tíu og ég fór ekkert of hátt upp eftir það. Þetta var lélegt en ég vona og veit að við gerum betur á móti Fram,“ sagði Patrekur.

Halldór: Verður ekki erfitt að gíra sig upp í leik gegn KA

Þrátt fyrir tap gegn Stjörnunni fannst Halldóri Erni Tryggvasyni sínir menn gera margt vel í leiknum.vísir/vilhelm

Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs, var svekktur með að sínir menn hafi ekki nýtt færin sem gáfust til að velgja Stjörnunni undir uggum.

„Ég var að segja það við strákana inni í klefa. Þetta voru ansi mörg dauðafæri. Eigum við ekki að segja að þetta sé sagan okkar í vetur,“ sagði Halldór.

Þór féll í síðustu umferð og hafði því ekki að neinu að keppa í dag.

„Við nennum að keppa en þetta er gríðarlega erfitt, sérstaklega eftir að hafa fallið endanlega í síðasta leik. Við nennum samt enn að spila handbolta og finnst það gaman,“ sagði Halldór.

„Við erum búnir að tala um að klára þetta eins og menn og ætlum að gera það. Menn æfa vel og við erum ekkert hættir.“

Halldóri fannst margt jákvætt við frammistöðu Þórs í dag. „Við hættum ekki og héldum alltaf áfram. Narri [Arnar Þór Fylkisson] kom flottur inn í markið og ungu strákarnir komu vel inn í þetta. Ég var ánægður með mjög margt og við getum byggt á þessu fyrir næsta tímabil.“

Þór mætir KA í lokaumferð Olís-deildarinnar á fimmtudaginn.

„Við ætlum að klára þetta með stæl. Það er morgunljóst. Það verður ekki erfitt að gíra sig upp í leik gegn KA, eða ég vona ekki. Við mætum galvaskir á fimmtudaginn,“ sagði Halldór að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira