Hið nýja umspil NBA-deildarinnar hófst í nótt með tveimur leikjum. Liðin í 7. og 8. sæti austurdeildar mættust og þar vann Boston 118-100 sigur á Washington Wizards. Washington fær annað tækifæri til að komast í úrslitakeppnina – hreinan úrslitaleik við Indiana Pacers sem unnu Charlotte Hornets 144-117, í uppgjöri liðanna í 9. og 10. sæti.
Boston getur þakkað Jayson Tatum það að liðið skuli komið í úrslitakeppnina, þar sem Boston mætir Brooklyn Nets. Indiana eða Washington mun mæta Philadelphia 76ers.
Tatum skoraði 50 stig í nótt eða hátt í helming stiga Boston. Hann skoraði 32 af stigunum í seinni hálfleik en Boston hóf hann af miklum krafti með 22-4 spretti. Þannig komst liðið í 74-58 og þó að Washington hafi náð að minnka muninn í sjö stig þá komst liðið ekki nær.
Tatum hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa of hægt um sig sem leiðtogi Boston en það var annað uppi á teningnum í nótt:
„Ég veit að ég hef öðlast virðingu liðsfélaga mína. Ég hef öðlast virðingu strákanna sem ég spila á móti. Ég hef trú á sjálfum mér og það er það eina sem skiptir máli,“ sagði Tatum.
„Mættu inn á völl og veittu okkur kjaftshögg“
Í Indianapolis var aldrei spurning hvernig færi. Domantas Sabonis skoraði 14 stig, tók 21 frákast og gaf níu stoðsendingar í öruggum sigri Pacers.
„Þegar að maður tapar með þrjátíu stiga mun þá hefur ekkert gengið upp. Þeir mættu inn á völl og veittu okkur kjaftshögg. Þeir voru grimmara liðið og léku fullir af orku,“ sagði Cody Zeller, leikmaður Charlotte og fyrrverandi stjarna Indiana háskólaliðsins.
Umspilið heldur áfram í kvöld í vesturdeildinni þegar meistarar LA Lakers mæta Golden State Warriors í leik sem mun færa öðru liðinu sæti í úrslitakeppninni. Tapliðið mun þurfa að mæta Memphis Grizzlies eða San Antonio Spurs sem mætast einnig í kvöld.