Skoðun

Erlendar efnisveitur á Íslandi: Ekkert svar

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur ekki enn svarað skriflegri fyrirspurn frá mér um starfsemi erlendra efnisveitna hér á landi en fyrirspurnin var lögð fram þann 7. desember á síðasta ári. Reglur þingsins kveða á um að skriflegum fyrirspurnum sé að jafnaði svarað innan hálfs mánaðar en skriflegar skýringar á töfunum skuli koma ef ekki tekst að svara innan tímamarka. Nú eru liðnir meira en fimm mánuðir og engin svör berast og engar skýringar. Það fer að örla á höfnunarkennd hjá manni.

Samt eru þessar spurningar alveg svaraverðar.

Í nýlegu meirihlutaáliti Allsherjar- og menntamálanefndar um fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur er klausa um þetta þar sem talað er um nauðsyn þess að jafna stöðu innlendra og erlendra fjölmiðla og tekið fram að fjármála- og efnhagsráðuneytið og menntamálaráðuneytið „hafi til skoðunar skattlagningu erlendra efnis- og streymisveitna eða ígildi skattlagningar rafrænna viðskipta við erlendu miðlana.“

Guð láti gott á vita, að ráðuneytisfólk „hafi til skoðunar“ mál þó ekki sé verið að ómaka sig við að svara óbreyttum stjórnarandstöðuþingmanni – því þetta er stórmál. Kannski vefst fyrir ráðherranum að ég skuli setja málið í samhengi við evrópusamstarf okkar, sem er hægrimönnum feimnismál, en með fullri virðingu fyrir afli og málafylgju íslenskra stjórnvalda er hætt við að fátt verði um svör ef Íslendingar fara að hafa í hótunum við þess risa – þeir bara fari – en hér geti Íslendingar notið stærðarhagkvæmni í samfloti við Evrópusambandið.

Fyrirspurn mín var í þremur liðum og svohljóðandi:

  1. „Hafa íslensk stjórnvöld af sjálfsdáðum, eða í samvinnu við önnur EFTA-ríki, metið hvaða þýðingu löggjöf um skattlagningu á stafræna þjónustu, eins og Evrópusambandið og OECD eru að skoða, hefði á Íslandi?
  2. Hefur verið lagt mat á það hvort íslenskt skattaumhverfi sé í stakk búið að innleiða nauðsynlegar breytingar til að slík skattlagning, þvert á landamæri, virki með skilvirkum hætti á Íslandi? 
  3. Telur ráðherra ekki mikilvægt að hafin sé strax vinna við gerð á íslenskri löggjöf um skattlagningu á stafræna þjónustu svo að Ísland verði tilbúið í breytingar með öðrum þjóðum á Evrópska efnahagssvæðinu þegar að þeim kemur?“

Þessar spurningar varða grundvallaratriði í rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi, og þá hrikalega skekktu samkeppnisstöðu sem þeir búa við gagnvart alþjóðarisum sem starfrækja hér efnisveitur og samfélagsmiðla án þess að greiða skatta, laun eða aðrar skyldur, og neyta aflsmunar í krafti stærðar sinnar.

Höfundur er þingmaður Samfylkingar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.