Handbolti

Daninn Aron Pálmarsson sagður hafa haft áhrif á brotthvarf þjálfarans

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Pálmarsson fer frá Barcelona til Álaborgar í sumar.
Aron Pálmarsson fer frá Barcelona til Álaborgar í sumar. Getty/Martin Rose

Handknattleiksþjálfarinn sigursæli Xavi Pascual komst nýverið að samkomulagi við Barcelona um að rifta samningi sínum við félagið. Aron Pálmarsson hafði áhrif á þá ákvörðun.

Aron og Pascual hafa unnið allt sem hægt er að vinna á Spáni frá því að Aron kom til Barcelona árið 2017. Samkvæmt spænska blaðinu El País, sem reyndar segir að Aron sé danskur, vildi Pascual ólmur halda Aroni í sínu liði og tilkynning um brotthvarf hans til Álaborgar í sumar fór illa í þjálfarann.

El País segir að samkomulag hafi náðst í vetur um nýjan samning Arons við Barcelona. Hins vegar hafi verið beðið með undirskrift vegna væntanlegra forsetaskipta.

Joan Laporta tók við sem forseti Barcelona, með spænsku handboltagoðsögnina Enric Massip í sínu teymi. Samkvæmt El País tóku þeir þá ákvörðun að hætta við að gera nýjan samning við Aron.

Pascual, sem hafði séð Aron fyrir sér áfram í lykilhlutverki, var óánægður með þetta og fleira og ákvað því að hætta þjálfun Barcelona í sumar þó að samningur hans gilti til 2022.

Barcelona er komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu og mætir þar Meshkov Brest frá Hvíta-Rússlandi 12. og 20. maí. Sigurliðið verður með um úrslitahelgina í Köln 12.-13. júní. Börsungar komust í úrslitaleikinn á síðustu leiktíð (sem reyndar lauk í desember vegna kórónuveirufaraldursins) og töpuðu þar gegn Kiel.


Tengdar fréttir

Álaborg staðfestir komu Arons

Aron Pálmarsson hefur samið við Danmerkurmeistara Álaborgar og kemur til liðsins í sumar frá Barcelona.

Enn einn titill Arons

Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona eru spænskir meistarar eftir stórsigur á Puente Genil, 37-21 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.