Um­fjöllun og við­töl: Sel­foss - Valur 26-31 | Val­sarar að komast í úr­slita­keppnis­gírinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Róbert Aron Hostert var flottur í kvöld.
Róbert Aron Hostert var flottur í kvöld. vísir/hulda margrét

Selfoss og Valur mættust í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld í mikilvægum leik í baráttunni um heimaleikjarétt. Selfyssingar byrjuðu af miklum krafti, en Valsmenn tóku öll völd eftir um tíu mínútna leik og lönduðu að lokum góðum fimm marka sigri, 31-26.

Selfyssingar byrjuðu leikinn miklu betur og komust fljótlega í 4-0. Það gekk ekkert upp hjá gestunum í byrjun leiks, en þeir skoruðu sitt fyrsta mark eftir fimm mínútna leik.

Selfyssingar héldu áfram að þjarma að Valsmönnum, og þegar um níu mínútur voru liðnar var staðan orðin 9-2, heimamönnum í vil.

Þá var Snorri Steinn búinn að fá nóg og tók leikhlé fyrir gestina. Þetta leikhlé virðist hafa kveikt í Völsurum, en þeir tóku öll völd eftir að Snorri var búinn að skerpa á sínum mönnum.

Valsmenn tóku 10-3 kafla og jöfnuðu leikinn í 12-12 þegar rúmar fimm mínútur voru til hálfleiks. Selfyssingar náðu aðeins að rétta sig af og gott mark frá Atla Ævari á lokasekúndum hálfleiksins tryggði það að staðan var jöfn þegar gengið var til búningsherbergja, 15-15.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í byrjun seinni hálfleiks og liðin skiptust á að skora fyrstu mínúturnar.

Selfyssingar fengu nokkur tækifæri til að endurheimta forskot sitt, en voru þá sjálfum sér verstir og köstuðu boltanum ýmist frá sér, eða létu Martin Nagy verja frá sér. Tökum reyndar ekkert af Martin Nagy sem var frábær í kvöld.

Þegar um korter lifði leiks fóru Valsmenn að taka yfir leikinn og tæpar tíu mínútur voru til leiksloka var munurinn orðinn fimm mörk.

Selfyssingar reyndu hvað þeir gátu til að klóra í bakkann, en eins og áður í leiknum gekk lítið upp í sóknarleik Selfyssinga og Valsmenn fengu auðveld mörk upp úr því.

Heimamenn náðu að minnka niður í þrjú mörk, en tvö hraðaupphlaupsmörk gestanna sáu til þess að fimm marka sigur var í höfn. Lokatölur 31-26 og sigur Valsmanna verðskuldaður.

Af hverju vann Valur?

Þó að byrjun gestanna hafi ekki verið til útflutnings voru þeir miklu sterkari aðilinn í 50 mínútur í kvöld. Selfyssingar átti í miklum vandræðum með að finna lausnir á varnarleik Vals og það skilaði oft á tíðum auðveldum mörkum hinu megin.

Hverjir stóðu upp úr?

Róbert Aron Hostert átti góðan leik í liði gestanna og skoraði sex mörk ásamt því að búa mikið til fyrir félaga sína. Martin Nagy kom sterkur inn í markið eftir erfiða byrjun Valsmanna og varði níu skot, sem gerir 35 prósent markvörslu.

Það verður líka að nefna Magnús Óla Magnússon sem er að koma til baka eftir meiðsli. Magnús Óli fékk þónokkrar mínútur í kvöld og sýndi oft á tíðum hvers hann er megnugur. Það er mikilvægt fyrir Valsmenn að koma honum í gott leikform fyrir úrslitakeppnina.

Hvað gekk illa?

Selfyssingar áttu í miklum vandræðum með að finna lausnir á varnarleik Valsmanna. Selfyssingar skoruðu níu mörk fyrstu níu mínúturnar, en sóknarleikur þeirra var oft á tíðum stirður eftir það.

Vörnin hefur einnig verið aðalsmerki Selfyssinga í vetur, en að fá á sig 31 mark eftir að hafa haldið Valsmönnum í tveim mörkum fyrstu tíu mínúturnar er ekki gott.

Hvað gerist næst?

Selfyssingar fara norður og mæta Þór Ak. á sunnudaginn klukkan 16:00. Á sama tíma spila Valsarar gegn Gróttu í Origo höllinni.

Halldór Jóhann: Það eru bara allt of margir í mínu liði í dag sem eru ekki nógu góðir

Halldór Jóhann var virkilega svekktur með spilamennsku sinna manna í kvöld.vísir/hulda margrét

Halldór Jóhann Sigfússon var eðlilega ósáttur við leik sinna manna í kvöld. Hann segir að liðinu hafi skort einbeitingu.

„Þeir spila ekki vörn fyrstu mínúturnar og við erum komnir í 9-2 eða eitthvað svoleiðis en svo fara þeir bara að slást við okkur,“ sagði Halldór eftir leikinn.

„Mér fannst þeir fá að komast upp með ansi harkaleg brot, Alexander fer tvisvar út af í byrjun og ég held að við séum með svipað margar brottvísanir en ég gat ekki séð það á leiknum að harkan á milli liðana hafi verið svipuð. Mér fannst þeir bara fá að komast upp með það.“

Halldór segir að sínir menn hafi gefið eftir og ekki verið nógu einbeittir.

„Við gáfum bara eftir og vorum lélegir í því. Við hefðum átt að taka miklu betur á móti þeim og ég er mjög ósáttur með að fá á okkur 31 mark. Ég held að það sé það mesta sem við höfum fengið á okkur í deildinni í vetur.“

„Við missum bara einbeitingu og gerum einföldu hlutina alveg afskaplega illa í dag á meðan þeir nýta sér alla sína styrkleika og gera það vel.“

Selfyssingar náðu sjö marka forskoti snemma leiks en köstuðu því fljótt frá sér.

„Það er alveg ljóst að það sem strákarnir gerðu vel á fyrstu tíu mínútunum hljóta þeir að geta gert jafn vel á næstu 50. Ég veit ekki hvort menn hafi bara slakað á eða hvað. Ég trúi því nú varla.“

„Við vorum bara að gera illa. Við vorum að hlaupa allt of mikið með boltann og við erum ekki að hreyfa hann nóg. Þeir eru að hlaupa mikið út úr vörninni og við vorum ekki að ná að skila boltanum frá okkur. Við vorum svolítið kærulausir og bara ekki nærri því nógu aggressívir. Það verður að segjast eins og er og það eru bara allt of margir í mínu liði í dag sem eru ekki nógu góðir.“

„Auðvitað erum við með unga stráka sem eru að stíga sín fyrstu skref og allt það á móti góðu og rútíneruðu Valsliði en mér finnst samt að við eigum að geta gert miklu betur á stórum köflum í leiknum.“

Selfyssingar fara norður á Akureyri þar sem þeir mæta Þórsurum næsta sunnudag. Halldór segir að liðið þurfi að gera betur til að eiga möguleika á að ná einu af efstu fjórum sætum deildarinnar.

„Eins og við höfum alltaf sagt þá tökum við bara einn leik í einu. Við náðum góðum sigri úti í Eyjum og það hefði svo sem átt að gefa okkur sjálfstraust til að spila allavega varnarleikinn betur í dag. Þetta er svolítið okkar saga í vetur að þegar við lendum í „blackouti“ í sókninni þá lendum við líka í því í vörninni.“

„Við eigum það til að missa einbeitingu þegar það gerist og það er klárlega það sem gerðist í dag. Á báðum endum vallarins missum við bara einbeitingu í langan, langan tíma.“

Snorri Steinn: Ég var ekkert pollrólegur en ég var heldur ekkert of æstur

Snorri Steinn var vikilega ánægður með það hvernig sínir menn brugðust við erfiðri byrjun.vísir/hulda margrét

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var virkilega sáttur með stigin tvö í kvöld. Sigurinn lyftir Valsmönnum upp fyrir Selfoss og upp að hlið Stjörnunnar og ÍBV í þriðja sæti.

„Ég er bara gríðarlega ánægður og bara mjög góður leikur af okkar hálfu og sérstaklega eftir mjög erfiða byrjun,“ sagði Snorri eftir leikinn. „Við lendum 9-2 undir og það er ekki sjálfsagður hlutur að vinna upp það forskot hérna á Selfossi en við gerðum það og fyrir vikið er ég enn þá ánægðari.“

Í stöðunni 9-2 tók Snorri leikhlé og eftir það tóku Valsmenn öll völd á vellinum. Snorri segist hafa verið nokkuð rólegur í leikhléinu.

„Ég var nú með mæk þannig að þið ættuð að hafa heyrt hvað ég sagði,“ sagði Snorri léttur. „Ég var ekkert pollrólegur en ég var heldur ekkert of æstur. Við vorum með tvisvar tvær mínútur á þessum kafla og hann er að verja vel í markinu og ver góð færi frá okkur. Viðvorum hálf taktlausir og ekki sjálfum okkur líkir í byrjun.“

„Þessi hluti sló okkur aðeins út af laginu en mér fannst mikilvægt að við myndum halda okkar leikskipulagi og ekki fara að umturna einu eða neinu þó að hlutirnir hafi ekki litið neitt svakalega vel út.“

„Ég vildi bara reyna að mjatla þessu fram að háfleik og við gerðum það, og rúmlega það og náðum að jafna.“

Magnús Óli Magnússon er að koma til baka eftir meiðsli og skoraði nokkur góð mörk. Snorri segir að það sé mikilvægt að koma honum í gott stand fyrir lokasprett mótsins.

„Það er yndislegt að fá Magga. Í svona leik þar sem þeir eru að spila 5-1 eða 3-2-1 vörn og að geta hvílt Anon eða Robba og fengið Magnús Óla inn. Þrátt fyrir það að hann sé ekki í sínu besta standi þá sýndi hann í dag að það eru fáir í þessari deild sem eru jafn góðir maður á mann eins og hann. Hann gaf okkur klárlega gríðarlega mikið mikið í þessum leik.“

Valsmenn mæta Gróttu næsta sunnudag og ef þeir ætla sér að ná í heimaleikjarétt í úrslitakeppninni er það leikur sem þeir þurfa að vinna. Snorri segist þó ekki vera að velta sér of mikið upp úr því.

„Ég er nú ekki alveg klár á því hvernig staðan er í deildinni, ég verð bara að segja alveg eins og er. Það er leiðinlegra að kíkja á stöðuna þegar maður er ekki efstur.“

Fyrir nokkrum dögum síðan snérist þetta frekar um að gera okkur gildandi til að komast í úrslitakeppnina. Ég ætla ekkert að segja að við séum að berjast fyrir lífi okkar hvað það varðar því það er bara í okkar höndum.“

„Það eru fáir leikir eftir og þetta snýst bara um það að koma sér á góðan stað og komast á gott ról og nálgast þessi topplið, Hauka, FH og fleiri lið hvað spilamennsku varðar ef við ætlum eitthvað að blanda okkur í þá baráttu. En mér finnst það bara ekki alveg tímapunkturinn núna að fara að velta því fyrir sér,“ sagði Snorri að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira