Körfubolti

„Þetta er það sem við vitum að Hjálmar getur gert“

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson og Valsmenn eru í góðum málum.
Finnur Freyr Stefánsson og Valsmenn eru í góðum málum. vísir/hulda

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals var að vonum sáttur í leikslok eftir að Valsmenn unnu sigur á Haukum í Domino's deild karla í kvöld.

„Við byrjuðum illa sóknarlega og tókst ekki að leysa alveg strax hvernig þeir ætluðu að spila vörnina á okkur. En svo þegar við náðum að finna Jordan betur þá kom betra flæði í þetta. Varnarleikurinn okkar varð aðeins betri. Haukarnir gera svakalega vel að hreyfa boltann og gefa aukasendinguna og svona. Þeir gerðu virkilega vel og ég er gríðarlega ánægður með að sigra þennan.“

Aðspurður sagði Finnur að varnarframlag Hjálmars Stefánssonar hafi verið virkilega gott en Hjálmar tók að sér að dekka Pablo Bertone.

„Þetta er það sem við vitum að Hjálmar geti gert. Hann hefur marga góða kosti en sennilega hans besti kostur er að spila vörn á bakverði andstæðingana. Bertone er geggjaður leikmaður og Haukarnir vel mannaðir. En Hjálmar gerði virkilega vel og þegar hinir gæjarnir komu og við náðum að binda vörnina saman þá fannst mér við vera með þetta.“

Við sigurinn fara Valsmenn í fjórða sæti deildarinnar.

„Já við stefnum á að vinna alla leiki og sjá bara til hvert það tekur okkur. Við eigum eftir að spila á móti besta liði landsins í Keflavík á föstudaginn og eigum svo Grindavík heima. Það kom aðeins meira varnarintensity heldur en í Þorlákshöfn í síðasta leik og við verðum bara að byggja á því.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.