Skoðun

Snúum (sótt)vörn í (fram)sókn

Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar

Efnahagslegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa frá upphafi faraldursins verið markvissar og árangursríkar. Aðgerðirnar hafa verið fjölbreyttar og settar af stað með því markmiði að vernda afkomu fólks og fyrirtækja í landinu.

Hlutabótaleiðin

Sú aðgerð sem hefur kannski vakið mesta athygli er hlutabótaleið Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra. Hlutabótaleiðin er afskaplega vel heppnað úrræði og hefur þjónað tilgangi sínum afar vel. Hlutabótaleiðin virkar þannig að greiddar eru tímabundnar atvinnuleysisbætur í hlutfalli við minnkað starfshlutfall starfsmanna. Hugmyndin að baki þessum aðgerðum er að viðhalda ráðningasambandi í gegnum þetta tímabundna ástand sem skapast hefur vegna Covid.

Hefjum störf

Í síðasta mánuði kynnti Ásmundur Einar til leiks vinnumarkaðsátakið „Hefjum Störf“. Með þessu úrræði á að skapa á 7.000 störf í samvinnu við atvinnulífið, félagasamtök, stofnanir og sveitarfélög. Viðtökurnar í því verkefni hafa verið fram úr björtustu vonum en hátt í 4.000 ný störf hafa nú þegar verið komið á laggirnar.

Viðspyrna framundan

Bólusetningar innanlands eru á fleygiferð og sumarið er komið, nú þurfum við að vera tilbúin að stíga næstu skref og huga að viðspyrnunni. Það er mikilvægt að íslenskt atvinnulíf sé í stakk búið að takast á við þau verkefni sem framundan eru og hafi nægt súrefni til þess að veita öfluga viðspyrnu.

Því er afar jákvætt og jafnvel táknrænt að sjá hlutabóta leiðina renna út og sjá vinnumarkaðsátakið „Hefjum Störf“ taka við. Eitt mikilvægasta verkefnið er að koma þeim sem hafa verið á hlutabótum aftur í virkni. Með þessu úrræði geta aðilar snúi aftur til fyrri starfa í fullu ráðningasambandi og fá fyrirtækin stuðning til þess í 4 mánuði. Þetta er rökrétt og skynsamlegt skref. Með þessu fá fyrirtæki í landinu stuðning til að starfa aftur á fullu afli þar til hjól atvinnulífsins verða farin að rúlla á eðlilegum hraða í haust.

Þetta er tímapunkturinn sem við snúum vörn í sókn. Það er bjart framundan og með kraftmikilli viðspyrnu munum við ná að grípa þau tækifæri sem framundan eru.

Klárum leikinn!

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.