Körfubolti

Sjöfaldur NBA meistari útskrifaðist úr háskóla um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Horry stoltur við hlið móður sinnar sem er með prófskírteinið hans.
Robert Horry stoltur við hlið móður sinnar sem er með prófskírteinið hans. Twitter/@RKHorry

Körfuboltastjarnan Robert Horry stóð við loforðið sem hann gaf móður sinni og fór aftur í skóla til að útskrifast.

Stjörnuleikmenn í NBA-deildinni þurfa ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni þegar ferlinum lýkur en einn þeirra vildi klára það sem hann byrjaði á fyrir þremur áratugum.

Robert Horry fékk meira en 53 milljónir dollara í laun á körfuboltaferli sínum, meira en sex milljarða íslenskra króna, en hann átti magnaðan feril í NBA deildinni í körfubolta þar sem hann vann titilinn með þremur liðum og setti niður mörg mikilvæg skot á úrslitastundu.

Horry kláraði hins vegar ekki háskólanámið áður en hann fór í atvinnumennsku í NBA-deildinni.

Horry var í Alabama háskólanum frá 1988 til 1992 en náði ekki að útskrifast. Hann ákvað að drífa sig í því að klára námið og útskrifaðist um helgina.

Hann setti inn myndir á samfélagsmiðla sína og skrifaði undir: Mamma, ég kláraði þetta.

Houston Rockets valdi hann númer ellefu í nýliðavalinu 1992 og hann var fljótur að kynnast því að verða meistari.

Horry varð sjö sinnum NBA meistari með Houston Rockets (1994 og 1995), Los Angeles Lakers (2000, 2001, og 2002) og San Antonio Spurs (2005 og 2007) og fékk gælunafnið „Big Shot Bob“ fyrir öll stóru skotin sem hann setti niður í úrslitakeppninni með þessum liðum.

Horry lék alls 1107 deildarleiki á NBA ferlinum sem endaði tímabilið 2007-08. Hann spilaði líka 244 leiki í úrslitakeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×