Innlent

Diljá Mist vill þriðja sæti á lista Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Diljá Mist Einarsdóttir, hæstaréttarlögmaður og aðstoðarmaður utanríkisráðherra.
Diljá Mist Einarsdóttir, hæstaréttarlögmaður og aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Aðsend mynd

Diljá Mist Einarsdóttir, hæstaréttarlögmaður og aðstoðarmaður utanríkisráðherra, sækist eftir þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar, í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer í byrjun júní. Diljá hyggst taka sér leyfi frá störfum sem aðstoðarmaður ráðherra frá 17. maí til þess að vinna að framboði sínu.

Þetta kemur fram í tilkynningu um framboð Diljár. Hún er fædd í Reykjavík árið 1987 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti í desember 2016, yngst kvenna á Íslandi. Diljá er með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og LL:M. gráðu í auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti frá sama skóla. Diljá hefur verið aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra frá 2018 en áður starfaði hún sem fulltrúi á lögmannsstofunni Lögmáli.

„Ég tel mikilvægast að við horfum á stóru myndina – forræðishyggja og vaxandi afskipti ríkisins af venjulegu fólki er mikið áhyggjuefni. Í frjálsu samfélagi er hagsmunum okkar best borgið, þar nýtur hvert og eitt okkar sín best – fjölbreytileiki mannlífsins er okkar helsti styrkleiki. Við höfum staðið okkur best þegar við treystum á okkur sjálf. Nú eigum við að horfa óhrædd og björtum og augum til framtíðar,” er haft eftir Diljá Mist í tilkynningunni.

Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, meðal annars sem varaborgarfulltrúi og varaformaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Diljá Mist er gift Róberti Benedikt Róbertssyni fjármálastjóra og eiga þau tvö börn.

Á fjórða hundrað manns hafa lýst yfir stuðningi við framboð Diljár Mistar að því er fram kemur í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×