Um­fjöllun og við­töl: Kefla­vík - KR 95-87 | Kefla­vík deildar­meistari eftir endur­komu­sigur

Atli Arason skrifar
Keflavík fagnar eftir leik í gærkvöld.
Keflavík fagnar eftir leik í gærkvöld. VF-myndir/PállOrri

Keflavík byrjaði leikinn betur og komst strax í 6-0 forskot, eftir þrjár körfur frá Milka. KR-ingar eru þó fljótir að svara og ná 4-9 kafla í stöðunni 10-9 og komast svo yfir í fyrsta skipti í leiknum í stöðunni 16-18 eftir þriggja körfu Tyler Sabin. 

Leikurinn er svo fremur jafn næstu mínúturnar en Keflvíkingum gengur mjög illa að hitta úr sínum skot tilraunum á meðan gestirnir úr Vesturbæ hitta vel. Leikhlutanum lýkur með 7 stiga sigri KR-inga, 23-30.

Í öðrum leikhluta halda gestirnir áfram að keyra á heimamenn og komast mest í 15 stiga forskot í stöðunni 29-44. Við það vakna Keflvíkingar sem svara með 8-0 kafla, allt með skotum innan vítateigs en þriggja stiga nýting Keflavíkur var ekki góð framan af og þegar ein mínúta er í hálfleik eru Keflvíkingar 0 af 11 úr þriggja stiga tilraunum. 

Arnór Sveinsson tekur þá völdin í sín hendur og setur tvær þriggja stiga körfur á skömmu millibili og lagar stöðuna Keflavík í vil fyrir hálfleik þar sem liðin ganga til búningsherbergja í stöðunni 47-51.

Þriðji leikhluti er svo mjög jafn þegar á heildina er litið. KR byrjar á 0-8 kafla áður en Keflavík svarar með 9-0 kafla. Liðin skiptast svo á að setja niður körfur og þriggja stiga nýting Keflavíkur batnar aðeins. Fer svo að lokum að Keflavík vinnur þriðja leikhlutan með tveimur stigum og staðan í lok þriðja leikhluta var 69-71.

Keflavík lagar aðeins til í varnarleiknum fyrir fjórða leikhluta og um miðbik leikhlutans voru heimamenn komnir aftur yfir, í stöðunni 79-77. Leikurinn er jafn og spennandi út fjórða leikhluta en KR nær forustu skömmu síðar í stöðunni 82-83 með þrist frá Jakobi Erni Sigurðarsyni.

Þristur Jakobs virðist kveikja í Keflvíkingum og þá sérstaklega Deane Williams sem tók leikinn yfir og sá sjálfur um að skora 8 stig leiksins og koma Keflavík í þæginlega stöðu sem þeir svo gáfu aldrei eftir. Lokatölur 95-87 og Keflavík er deildarbikarmeistari árið 2021.

Af hverju vann Keflavík?

Framan af var skotnýting Keflavíkur alls ekki góð. Eftir að heimamenn hertu varnarleikinn og fóru að hitta úr þriggja stiga tilraunum sínum þá áttu gestirnir úr Vesturbænum fá svör.

Hverjir stóðu upp úr?

Deane Williams var hljóðlátur framan af en eftir að hann setti í fluggír og sérstaklega í fjórða leikhluta þegar hann kaffærði KR-ingum nánast eins síns liðs með 8-0 kafla þá verður hann að fá sérstakt hrós hér. Deane var alls með 21 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar ásamt því að eiga þrjú varin skot á mikilvægum tímapunktum leiksins. 

Calvin Burks var stigahæstur Keflvíkinga í kvöld með 25 stig og Dominykas Milka var þar á eftir með 24 stig og níu fráköst. Stoðsendinga konungur deildarinnar, Hörður Axel Vilhjálmsson verður einnig að fá hrós fyrir að fæða liðsfélaga sína með heilum 17 stoðsendingum í kvöld.

Í liði gestana var vararmaðurinn Brandon Nazione stigahæstur með 26 stig og þrjú fráköst, Jakob Örn kom þar næstur með 21 stig og sjö fráköst.

Hvað gerist næst?

Bæði lið spila núna strax aftur á sunnudaginn. KR fær Grindavík í heimsókn á meðan Keflavík ferðast á Sauðárkrók til að mæta Tindastól.

Hörður Axel: við ætlum að láta þennan deildarmeistaratitill telja eitthvað

Hörður Axel skýtur að körfunni.vísir/anton

Hörður Axel Vilhjálmsson var sigurreifur eftir sigur á KR og bikarafhendingu í lok leiks í kvöld.

„Þetta var erfiður sigur gegn erfiðu lið. Við vorum lengi í gang, sérstaklega varnarlega. Það er ákveðið áhyggjuefni en á sama tíma er það mjög ánægjulegt að strákarnir sem koma af bekknum koma og breyta leiknum. Þeir koma með orkustigið sem við þurftum í leiknum. Það er mjög góðs viti fyrir úrslitakeppnina að við getum fengið menn inn af bekknum sem geta breytt leikjum,“ sagði Hörður þegar hann kom í viðtal eftir leik.

Þriggja stiga nýting Keflavíkur var ekki góð framan af en það skaðaði liðið þó ekki þegar uppi var staðið.

„Arnór setti niður tvö mikilvæga þrista en fyrir það vorum við 0 af 11. Þetta er bara svona, svona er leikurinn, stundum hittir maður og stundum ekki. Við vorum kannski að taka ótímabær skot af dripplinu af því að þeir voru að falla niður, sérstaklega ég. Þetta eru góð skot ef maður hittir úr þeim en ekkert svo spes ef maður klikkar. Við löguðum það aðeins í seinni hálfleik og við fundum kerfi sem að þeir gátu ekki stoppað sem við bara mjólkuðum endalaust,“ bætti Hörður við.

Hörður endaði þennan leik með 17 stoðsendingar og er kominn lang leiðina að því að verða stoðsendinga konungur deildarinnar. Aðspurður kveðst Hörður þó ekkert vera að spá í því.

„Nei í rauninni ekki. Ég spila bara leikinn og sé hvað vörnin gefur mér hverju sinni. Þeir voru að skipta mikið á öllum sem gerði mér mjög auðvelt að finna sendingar yfir litlu mennina þeirra varnarlega. Ég hef sennilega fengið 10-12 stoðsendingar bara á því,“ svaraði Hörður.

Með sigrinum í kvöld fengu Keflvíkingar deildarbikarmeistara titilinn afhentan. Hörður minnir þó alla á að þetta er ekki enn þá búið.

„Þetta var mjög skemmtilegt. Ég er glaður að fá að taka þátt í þessu, en á sama tíma þá er þetta bara eitt skref í átt að okkar markmiðum og við ætlum að láta þennan deildarmeistaratitill telja eitthvað.“

Það er stutt á milli leikja eins og áður í Dominos deildinni. Hörður er viss um að nýkrýndir deildarbikarmeistarar komi þó strax tilbúnir í næsta leik gegn Tindastól.

„Það verður ekkert erfitt að koma sér niður á jörðina. Við erum allir meðvitaðir um okkar markmið. Við erum búnir að spila heilt yfir bara mjög stöðugt sama hvað bjátar á. Ég held að þetta muni ekki stíga mönnum til höfuðs og ætti í raun ekki að gera það. Þegar við byrjuðum á þessu í haust þá vissum við alveg á hvað við stefndum. Ég held að við verðum bara mjög góðir á sunnudaginn.“

Þrátt fyrir að efsta sætið er tryggt þá telur Hörður að liðið eigi ekki að fara að rótera of mikið í hópnum til að hvíla lykilmenn í næstu leikjum.

„Við verðum að halda takti alla leið inn í úrslitakeppnina. Við munum kannski rótera aðeins meira og hugsa um að komast ferskir inn í úrslitakeppnina en á sama tíma verðum við að halda þessum ryþma gangandi í liðinu. Ef við förum að slaka á núna í næstu þremur leikjum á meðan hin liðin sem við mætum í úrslitakeppninni koma á fullu inn í úrslitakeppnina eftir þrjá leiki, það er vandasamt að finna réttu blönduna á þessu,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson að lokum.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira