Umfjöllun og viðtöl: Þór Þorl. - Valur 98-96 | Þórsarar stöðvuðu sigur­göngu Vals

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Larry Thomas skoraði 14 stig, tók þrjú fráköst og gaf fimm stoðsendingar í kvöld.
Larry Thomas skoraði 14 stig, tók þrjú fráköst og gaf fimm stoðsendingar í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Þór Þorlákshöfn sá til þess að Valur vann ekki sinn sjöunda leik í röð í Domino´s deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur 98-96 Þórsurum í vil í háspennuleik.

Heimamenn komust fljótt í 5-0 en Valsarar tóku þá öll völd og skoruðu 12 stig gegn tveimur stigum Þórsara. Valsmenn héldu forystunni mest allan leikhlutann og náðu mest níu stiga forskoti. Larry Thomas skoraði þá seinustu fimm stig leikhlutans á seinustu 30 sekúndunum og minnkaði muninn í 22-18.

Það sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta. Valsarar juku forskotið og Þórsarar söxuðu á það til skiptis. Gestirnir náðu mest tíu stiga forskoti í leikhlutanum, en frábær kafli heimamann undir lok hálfleiksins og fallega útfærð lokasókn sem skilaði auðveldu sniðskoti tryggði það að staðan var jöfn, 47-47 þegar gengið var til búningsherbergja.

Liðin settu strax tóninn um hvað koma skildi í seinni hálfleik, en fyrstu fimm körfur þriðja leikhluta komu fyrir utan þriggja stiga línuna. Mikið jafnræði var með liðunum í leikhlutanum, en hann bauð þú upp á dramatík í lokin. Ragnar Örn setti þrist fyrir heimamenn þegar fimm sekúndur voru eftir, en gestirnir geystust fram og Sinisa Bilic svaraði með flautukörfu. Staðan því 74-71 þegar komið var að lokaleikhlutanum.

Heimamenn voru sterkari aðilinn í byrjun fjórða leikhluta og náðu mest sjö stiga forskoti. Gestirnir hleyptu þeim þó aldrei of langr fram úr sér og náðu að minnka muninn í eitt stig þegar rúm mínúta var eftir. Valsarar fóru þá illa að ráði sínu og heimamenn juku forskot sitt aftur í fjögur stig þegar um 15 sekúndur voru eftir.

Valsmenn náðu ekki að koma boltanum ofan í körfuna fyrr en tæpar fimm sekúndur voru á klukkunni og þá var það orðið of seint. Heimamenn lönduðu því virkilega sterkum tveggja stiga sigri.

Af hverju vann Þór?

Það er erfitt að benda á eitthvað eitt sem leidi til þess að Þórsarar unnu í kvöld. Þeir enda leikinn með 48% þriggja stiga nýtingu, en gestirnir voru einnig að skjóta mjög vel. Lárrus Jónsson, þjálfari Þórsara, talaði um góða skotnýtingu og fráköst og það var líklega það sem skóp sigurinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Callum Reese Lawson skoraði 31 stig í liði heimamanna og var stigahæsti leikmaður vallarins. Styrmir Snær átti mjög góðan leik fyrir Þórsara, en hann skoraði 24 stig, tók tíu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Hvað gerist næst?

Þórsarar eiga langt ferðalag framundan, en þeir heimsækja Hött á Egilsstaði næsta mánudag klukkan 19:15.

Klukkutíma síðar verður flautað til leiks í Origo höllinni þar sem Valsmenn taka á móti Haukum.

Lárus: Þetta var bara góður körfuboltaleikur

Lárus Jónsson var ánægður með leik sinna manna í kvöld. Hann segist ætla að nota næstu leiki til að undirbúa liðið fyrir úrslitakeppnina.vísir/bára

„Við náðum kannski yfirhöndinni í seinni hálfleik og við enduðum fyrri hálfleik mjög vel,“ sagði Lárus eftir sigur kvöldsins. „Mér fannst Valsarar vera með yfirhöndina mest megnis af fyrri hálfleiknum. Í seinni hálfleiknum náðum við að hægja aðeins á Jordan og þá vorum við aðeins með yfirhöndina, en annars var þetta bara rosalega jafn leikur.“

„Það er í rauninni ekki hægt að benda á eitthvað eitt sem vann leikinn. Við hittum mjög vel í seinni og svo vorum við kannski að frákasta aðeins betur en þeir. Eigum við ekki að segja það? Að góð hitni og fráköst hafi unnið leikinn.“

Lárus tók þó ekkert af Valsmönnum og hrósaði gæðum leiksins í kvöld, en var mest ánægður með að klára þennan leik eftir svekkjandi tap gegn Tindastól í seinustu umferð.

„Það var í rauninni bara frábær hitni hjá báðum liðum í seinni hálfleik. Þetta var bara góður körfuboltaleikur. Ég held að bæði lið geti verið nokkuð ánægð fyrir úrslitakeppnina með það hvernig þau voru að spila.“

„Þetta hefði getað farið á hvorn veginn sem var og ég var bara mjög ánægður með leikinn okkar fyrir norðan á móti Tindastól. Þeir voru bara með mjög gott lið og við töpuðum bara þegar tvö sekúndubrot voru eftir. Við getum bara verið sæmilega ánægðir með þetta, og Valsarar ábyggilega líka.“

Þórsarar ferðast til Egilsstaða á mánudaginn þar sem Höttur bíður þeirra. Lárus segir að hann ætli að nota þessa leiki sem eftir eru til að undirbúa liðið fyrir komandi úrslitakeppni.

„Ég held að við bara reynum að halda áfram að bæta okkur og spila á eins háu leveli og við getum fyrir úrslitakeppnina. Höttur er bara einn partur af því og við mætum í þann leik og reynum að sjá hvar við getum orðið ennþá betri sem liðsheild.“

„Við erum núna í fyrsta skipti í svolítið langan tíma með allt liðið. Adomas er að koma aftur inn eftir leikbann og Styrmir er að finna sitt gamla form eftir að hafa misstigið sig þannig að við ætlum bara að nýta þessa leiki sem eftir eru til að undirbúa okkur fyrir úrslitakeppnina.“

Finnur: Við lítum á alla leiki sem úrslitakeppnisleiki

Finnur Freyr Stefánsson segir að honum hafi fundist vanta upp á einbeitingu hjá sínum mönnum í kvöld.

„Það er auðvitað hundfúlt að tapa,“ sagði Finnur Freyr, þjálfari Vals eftir tapið í kvöld. „Mér fannst við gera margt vel í þessum leik en Þorlákshafnarliðið er bara gríðarlega gott. Þeir hreyfa boltann vel og þegar þeir eru að skjóta boltanum svona vel frá þriggja stiga línunni eins og þeir gerðu í dag þá er erfitt að eiga við þá.“

Finnur segir að það hafi verið margt gott í leik sinna manna og að leikurinn hefði getað fallið með hvoru liðinu sem var.

„Við komumst þarna yfir í fyrri hálfleik og þeir aðeins í seinni. Hérna undir lokinn er þetta bara 50/50 og þetta dettur bara á einu skoti hér og einu skoti þar, víti hér og víti þar, frákast hér og frákast þar. Þetta var bara orðið eins mikill 50/50 leikur og hægt var þarna undir lokin.“

Valsarar fá Hauka í heimsókn á mánudaginn og Finnur segir að hann og hans menn mæti í þessa leiki sem eftir eru eins og þeir séu úrslitakeppnisleikir.

„Þetta er bara sama gamla tuggan. Við lítum á alla leiki sem úrslitakeppnisleiki. Við þurfum að mæta í þessa leiki með það hugarfar.“

„Mér fannst kannski vanta aðeins upp á einbeitingu í ákveðnum hlutum í fyrri hálfleiknum og gáfum kannski svona full auðveldar körfur. Við bættum það í seinni hálfleik, en það er mikilvægt fyrir okkur að halda áfram að einbeita okkur að því að bæta okkur og vera klárir í næsta leik.“

„Maður veit ekkert hvernig staðan er í deildinni núna, en ef svo vill til að við komumst í gott sæti í úrslitakeppninni þá þurfum við bara að vera klárir í það. Aðalatriðið er núna bara leikur á mánudaginn á móti sjóðheitum Haukum og við verðum bara að eiga töluvert betri leik þar en við sýndum hér í kvöld.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.