Körfubolti

Seinka heimsókn sjóðheitra Valsmanna í Þorlákshöfn um einn dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Larry Thomas og félagar í Þór Þorlákshöfn spila ekki fyrr en á föstudagskvöldið.
Larry Thomas og félagar í Þór Þorlákshöfn spila ekki fyrr en á föstudagskvöldið. Vísir/Hulda Margrét

Leikur Þórsara og Valsmanna í Domino´s deild karla fer ekki fram í Þorlákshöfn á fimmtudagskvöldið heldur tæpum sólarhring síðar.

Kórónuveiran hefur verið að flækjast í Þorlákshöfn síðustu daga og af þeim sökum hefur verið ákveðið að seinka næsta heimaleik körfuboltaliðs bæjarins.

„Vegna aðstæðna í Þorlákshöfn, sem ættu að vera flestum kunnar, hefur leikur Þórs Þ. og Vals í Domino's deild karla verið færður af fimmtudeginum 29. apríl og til föstudagsins 30. apríl kl. 18:15,“ segir í tilkynningu frá Körfuknattleikssambandi Íslands.

Grunnskólinn í Þorlákshöfn var lagður undir skimun í morgun eftir að kórónuveirusmit greindist meðal nemenda. Hluti smitanna tengist hópsmiti í Þorlákshöfn þar sem þrettán eru nú í einangrun og nítján í sóttkví.

Þórsarar töpuðu síðasta leik en höfðu áður unnið þrjá leiki í röð þar á undan og alls átta af ellefu leikjum frá og með síðasta leik þeirra á móti Val.

Valsmenn eru aftur á móti búnir að vinna sex leiki í röð í deildinni og eru komnir upp í fjórða sæti deildarinnar. Nú munar aðeins fjórum stigum á Þór og Val.

Tveir leikir fara nú fram á föstudagskvöldið en þá fer einnig fram leikur Keflavíkur og KR. Hinir fjórir leikir nítjándu umferðarinnar verða spilaðir á fimmtudagskvöldið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.