Sport

Hné Söru Sigmunds fékk „lokaorð“ frá eiganda sínum rétt fyrir aðgerð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir var stressuð fyrir aðgerðina eins og má sjá á þessari mynd af henni á skurðarborðinu.
Sara Sigmundsdóttir var stressuð fyrir aðgerðina eins og má sjá á þessari mynd af henni á skurðarborðinu. Skjámynd/Youtube

Íslenska CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir fór í krossbandsaðgerð á dögunum og sýnir frá þessum mikilvæga degi í nýjasta endurkomumyndbandi sínu.

Sara Sigmundsdóttir ætlar að leyfa fylgjendum sínum að fylgjast með endurkomu sinni eins og þeir væru fluga á vegg. Sara sleit krossaband nokkrum dögum áður en tímabilið hófst og verður ekkert með á 2021 tímabilinu.

Nýjasta myndbandið fjallar um daginn sem Sara var mest stressuð fyrir eins og hún segir sjálf í kynningunni á því. Það er dagurinn þegar Sara gekkst undir aðgerðina á krossbandinu sem slitnaði á æfingunni afdrifaríku í byrjun mars.

Snorri Björnsson var með myndavélina á lofti og fékk að fylgja Söru inn fyrir allar dyr. Þau þekkjast mjög vel eftir að hafa unnið mikið saman og hún treysti honum til að festa þetta allt saman á mynd. Úr verður mjög fróðleg heimild um leið Söru til baka inn í CrossFit íþróttina.

„Það er ekki á hverjum degi sem þú ferð í aðgerð,“ segir Sara í viðtalinu í tengslum við þáttinn um aðgerðina hennar.

Rétt fyrr aðgerðina kemur læknirinn inn til Söru og spyr hvort hún sé tilbúin. Til að létta aðeins á spennunni þá spyr hann Söru hvort hún eigi einhver lokaorð fyrir hnéð sitt. Sara tók vel í það og þakkaði hnénu sínu fyrir þjónustuna í gegnum árin en bætti um leið við að þetta hné muni gera enn betur á komandi árum.

„Viltu segja eitthvað að lokum,“ spyr læknirinn og Sara horfir niður á veika hnéð og segir:

„Þú gerðir góða hluti en þú gerir betri hluti eftir þennan dag,“ sagði Sara í léttum tón. Sara auðvitað með jákvæðnina að vopni sem fyrr.

„Ég man eftir því að læknirinn sagðist ætla að syngja fyrir mig því hann ætlaði að syngja mig í svefn af því að ég var svo stressuð. Ég var svo dramatísk,“ sagði Sara.

„Ég sofnaði náttúrulega strax og fékk því ekki að heyra hans frábæru rödd,“ sagði Sara en það má sjá þáttinn um þennan risastóra dag hennar hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×