Körfubolti

Flautu­karfa hjá Miami, fram­lengt í New York og Ca­pela með stór­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Clint Capela var með tröllatvennu í liði Atlanta Hawks í kvöld.
Clint Capela var með tröllatvennu í liði Atlanta Hawks í kvöld. NBA

Þrír leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í kvöld. New York Knicks vann New Orleans Pelicans eftir framlengingu [122-112], Atlanta Hawks lagði Indiana Pacers [129-117] og Miami Heat vann Brooklyn Nets þökk sé flautukörfu Bam Adebayo [109-107].

Leikur Knicks og Pelicans í New York var frábær skemmtun. Heimamenn fóru gjörsamlega hamförum í öðrum leikhluta og voru með 13 stiga forystu í hálfleik, staðan þá 57-44. Gestirnir mættu tvíefldir til leiks í síðari hálfleik og virtust einfaldlega ætta að fara með sigur af hólmi þegar lítið var eftir af leiknum.

Á einhvern ótrúlegan hátt tókst Knicks að minnka muninn og Reggie Bullock af öllum mönnum jafnaði svo metin í 103-103 rétt fyrir leikslok. Staðan jöfn er venjulegur leiktími rann út og því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni voru Knicks mun sterkari aðilinn. Skoruðu þeir 19 stig gegn níu hjá Pelicans og unnu leikinn því með tíu stiga mun, lokatölur 122-112.

Það kemur svo sem ekki á óvart að Julius Randle hafi verið stigahæstur í liði Knicks með 33 stig ásamt því að gefa 10 stoðsendingar, taka fimm fráköst og stela boltanum fimm sinnum. Derrick Rose kom þar á eftir með 23 stig.

Hjá Pelicans var Zion Williamson með 34 stig ásamt því að taka níu fráköst og gefa fimm stoðsendingar. Þar á eftir Eric Bledsoe með 22 stig.

Atlanta vann sannfærandi 12 stiga sigur á Indiana Pacers í kvöld, lokatölur 129-117. Clint Capela átti ótrúlegan leik í liði Hawks en hann skoraði 25 stig ásamt því að hann tók 24 fráköst! Trae Young skoraði flest stig í liði Hawks eða 34 talsins.

Hjá Pacers var Malcolm Brogdon stigahæstur með 29 stig.

Leikur Nets og Miami var einnig hnífjafn og stórskemmtilegur. Nets urðu fyrir áfalli snemma í leiknum en Kevin Durant spilaði aðeins fjórar mínútur. Hann fékk þá högg á lærið og var tekinn af velli. Durant var heitur í upphafi leiks og hafði skorað átta stig en hann hefur verið mikið meiddur á leiktíðinni og Nets taka því engar áhættur.

Leikurinn var eins og áður sagði hnífjafn en undir lok fjórða leikhluta virtist sem Nets væru að sigla fram úr. Liðið náði sex stiga forystu en Miami kom til baka. Staðan var svo jöfn 107-107 þegar 45 sekúndur voru eftir. 

Nets tóku langa sókn sem endaði með því að Kyrie Irving klikkaði á þriggja stiga skoti og Miami fékk tækifæri á að vinna leikinn. 

Bam Adebayo nýtti það til fullnustu en hann skoraði sigurkörfuna er lokaflautið gall. Lokatölur 109-107 Miami í vil.

Adebayo var stigahæstur hjá Miami með 21 stig en hann tók einnig 15 fráköst. Landry Shamet var stigahæstur í liði Nets með 30 stig.

Hér má sjá stöðuna í deildinni. Hawks eru í 4. sæti Austurdeildar en Knicks lyftu sér upp í 6. sætið og Miami það sjöunda.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.