Loksins tókst Man Utd að leggja Burnl­ey að velli á Old Traf­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mason Greenwood fagnar fyrra marki sínu í dag en það kom eftir frábæran undirbúning Marcus Rashford.
Mason Greenwood fagnar fyrra marki sínu í dag en það kom eftir frábæran undirbúning Marcus Rashford. EPA-EFE/Gareth Copley

Burnley hefur gengið frábærlega á Old Trafford undanfarin ár og raunar hefur Manchester United ekki unnið lærisveina Sean Dyche á heimavelli síðan í febrúar árið 2015. Það frábæra gengi virtist ætla að halda áfram er Chris Wood kom gestunum yfir eftir rúmlega 20 sekúndna leik.

Burnley tók miðju, lyfti boltanum svo inn á teig heimamanna þar sem Woods flikkaði honum yfir Dean Henderson sem kom askvaðandi út úr marki sínu. Sem betur fer fyrir Henderson og heimamenn var táin á Woods fyrir innan er sendingin kom og markið dæmt af.

Fleira markvert gerðist raunar ekki í fyrri hálfleik en í upphafi þess síðari komust heimamenn yfir eftir frábæran undirbúning Marcus Rashford og Luke Shaw. Sá síðarnefndi gaf á Rashford sem óð upp vinstri vænginn og inn á teig þar sem hann renndi boltanum á Bruno Fernandes. Portúgalinn lét boltann renna í gegnum klof sitt og Mason Greenwood gat ekki annað en skorað af stuttu færi.

Staðan orðin 1-0 heimamönnum í vil en forystan entist ekki lengi. Raunar entist hún aðeins í 114 sekúndur en Burnley fékk hornspyrnu skömmu eftir að lenda undir. Ashley Westwood sendi boltann inn á markteig þar sem James Tarkowski stangaði hann í netið. Henderson stóð frosinn á línu sinni í marki heimamanna og staðan orðin 1-1 á Old Trafford.

Eftir þetta datt leikurinn verulega niður. Heimamenn sóttu og sóttu en sköpuðu sér engin afgerandi færi. Á endanum lét sigurmarkið sjá sig og var við hæfi að skot Greenwood færi af varnarmanni og í netið. Það þurfti eitthvað því um líkt til að brjóta ísinn.

Eftir að hornspyrna heimamanna var skölluð frá lyfti Paul Pogba boltanum út til hægri. Þar komst Greenwood í skotfæri en færið var þröngt. Skotið hafði viðkomu í Jack Cork og boltinn endaði í netinu. Eftir það setti Dyche tvo sóknarmenn inn á og Burnley freistaði þess að jafna metin.

Það gekk ekki betur en svo að varamaðurinn Donny van de Beek lagði upp mark fyrir annan varamann, Edinson Cavani, í uppbótartíma og lokatölur því 3-1. Burnley bölvun Old Trafford þar með aflétt og Man United heldur í veika von um að ná Manchester City á toppi deildarinnar, allavega bjartsýnustu stuðningsmenn liðsins.

Man United er með 66 stig í 2. sæti deildarinnar að loknum 32 leikjum. City er á toppnum með 74 stig og Leicester City með 56 stig í 3. sæti að loknum 31 leik. Burnley er í 17. sæti með 33 stig, sex stigum fyrir ofan fallsæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira