Skoðun

Hjá „kirkjunnar“ mönnum

Einar Sveinbjörnsson skrifar

Hér á Vísi var í vikunni sagt frá tveimur hressum prestum austur á landi sem halda úti Kirkjucasti. Þar ræða þeir ýmis mál, s.s um kynlíf, sjálfsfróun og annað sem þeir segja að sé tabú innan kirkjunnar og að stöðva þurfi þöggunarmenningu. Allt gott og gilt og blaðamaðurinn knái Jakob Bjarnar klikkir síðan út með því að segja að hitt og þetta eigi ekki upp á pallborðið hjá kirkjunnar mönnum.

Eins og nánast alltaf, er kirkjan sett undir einn og sama hatt. Prestarnir ungu eiga vitanlega við þjóðkirkjuna sem þeir starfa hjá. Við sem kjósum að tilheyra Fríkirkjusöfnuðum megum stöðugt sitja undir kirkjan þetta og kirkjan hitt, þegar í raun er verið er að tala um málefni þjóðkirkjunnar.

En Benjamín Hrafn Böðvarsson og Dagur Fannar Magnússon er alls varnað, enda augljóslega hræddir við að stíga á einhverjar tær þegar þeir taka það fram að með hlaðvarpi sínu séu þeir ekki að gefa út afstöðu (þjóð)kirkjunnar.

Fríkirkjuprestarnir í Hafnarfirði ypptu öxlum þegar þeir voru spurðir um hinn fræga Trans-Jesú á sunnudagaskólaplakatinu. Söfnuðurinn fór heldur ekki af hjörunum og starfið hélt bara áfram í kristilegum náungakærleika eins og það hefur alltaf gert.

Fríkirkjan í Hafnarfirði er nefnilega frjáls gerða sinni og lýtur ekki valdi ofan frá. Söfnuðurinn sjálfur ræður för og hann vill að kirkjan sín kallist á við núið, takist á við þær kviku breytingar sem verða á samfélagi mannana á hverjum tíma.

Mikið er lagt upp úr fermingarfræðslunni í Fríkirkjunni í Hafnarfiði. Að þar sé fengist við spurningar um lífið og tilveruna á krefjandi en líka uppbyggilegan hátt, þar sem foreldrar taka virkan þátt. Kannski er það einmitt þess vegna, sem að 160-170 ungmenni kjósa að fermast frá Fríkirkjunni ár hvert.

Trúarlífi og kristindómnum er mætt eftir þörfum hvers og eins. Þannig er það í Fríkirkjunni. Þar eru allir jafnir og kirkjan stendur fólki opin jafnt í gleði sem sorg. Þó Fríkirkjusöfnuðurinn sé staðsettur í Hafnarfirði er hann líka fyrir aðra og af þeim um 7.500 sem nú tilheyra kirkjunni eru fjölmargir sem búa annars staðar á landinu eða jafnvel í útlöndum.

Kirkjucastið er nú samt flott og áfram Benjamín og Dagur!

Höfundur er formaður safnaðarstjórnar Fríkirkjunnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.