Viðskipti innlent

Álverð rýkur upp og búið að hækka um 59 prósent

Kristján Már Unnarsson skrifar
Álver Alcoa Fjarðaáls við Reyðarfjörð er stærsta álver landsins.
Álver Alcoa Fjarðaáls við Reyðarfjörð er stærsta álver landsins. Vilhelm Gunnarsson

Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað hratt á undanförnum vikum og fór í dag í 2.330 dollara tonnið. Það er 59 prósenta hækkun á ellefu mánuðum en um miðjan maí í fyrra fór verðið niður undir 1.460 dollara. Hækkunin frá því í byrjun febrúar nemur átján prósentum.

Markaðssérfræðingar rekja þessa miklu hækkun til vaxandi eftirspurnar í Asíu og aukinnar bjartsýni um efnahagsuppgang þegar sjái fyrir endann á heimsfaraldrinum. Þannig segir Bloomberg að sala á áli til framleiðslu flugvéla, rafstrengja, raftækja og bjórdósa hafi aukist um tólf prósent bara frá áramótum.

Fara þarf þrjú ár aftur í tímann, til aprílmánaðar 2018, til að finna dæmi um svo hátt álverð en þá fór það yfir 2.400 dollara. Slíkum hæðum hafði verðið þá ekki náð síðan árið 2011 en lengst af síðastliðinn áratug var það á bilinu 1.700 til 1.900 dollarar tonnið.

Þrjú álver eru starfrækt hérlendis; ÍSAL í Straumsvík, Norðurál á Grundartanga og Alcoa Fjarðaál í Reyðarfirði. Þessi mikla hækkun álverðs hefur bein áhrif á tekjur Landsvirkjunar. Þannig greindi forstjórinn Hörður Arnarson frá því í byrjun árs að 35 prósent af heildarorkusölu fyrirtækisins væru beintengd heimsmarkaðsverði á áli.

Það hlutfall hefur síðan hækkað. Um miðjan febrúar undirrituðu Landsvirkjun og Rio Tinto, eigandi ÍSAL, nýjan raforkusamning þar sem tenging við álverð var tekin upp að hluta að nýju.


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.