Körfubolti

Stefna á að byrja að spila í lok næstu viku og bikarkeppnin bíður væntanlega

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik í Domino's deild kvenna.
Úr leik í Domino's deild kvenna. vísir/vilhelm

Körfuknattleikssamband Íslands ætlar að klára Íslandsmótið innan þess tímaramma sem búið var að setja. Stefnt er á að keppni hefjist aftur í lok næstu viku.

Banni við æfingum og keppni í íþróttum innanlands verður aflétt á fimmtudaginn. Þetta kemur fram í nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra um sóttvarnaaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins. Íþróttabann hefur verið í gildi frá því á miðnætti miðvikudagskvöldið 24. mars.

„Við erum mjög sátt en hefðum viljað vera búin að koma á æfingum, sérstaklega á afreksstigi, fyrr í gang. En að sjálfsögðu erum við sátt og þetta er það sem við bjuggumst við að kæmi út úr fundinum,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við Vísi.

KKÍ hafði gefið sér frest fram til júníloka til að ljúka Íslandsmótinu. Og áfram er stefnt að því. Eins og staðan er núna verður bikarkeppnin væntanlega látin bíða en hún verður kláruð á endanum.

„Við erum bjartsýn og munum reyna allt sem hægt er til að klára mótið,“ sagði Hannes.

„Það eru allar líkur á að við bíðum með bikarinn en hann verður kláraður. Við þurfum bara að skoða hvernig við getum komið honum inn,“ sagði Hannes og bætti við svo gæti farið að bikarkeppnin yrði spiluð næsta haust.

Að sögn Hannesar er stefnan sett á að byrja að spila aftur í næstu viku.

„Æfingar geta hafist á fimmtudaginn og við horfum á að hefja keppni í lok næstu viku,“ sagði Hannes. Hann segir að stefnan sé sett á að ljúka keppni í Domino's deildunum í kringum 10. maí. Síðan tekur úrslitakeppnin við.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.