Innlent

At­kvæða­greiðsla um sam­einingu Skútu­staða­hrepps og Þing­eyjar­sveitar í júní

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mývatnssveit er í Skútustaðahreppi.
Mývatnssveit er í Skútustaðahreppi. Vísir/Vilhelm

Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafa samþykkt að atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaganna fari fram þann 5. júní næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mývatnsstofu.

Í tilkynningunni segir að samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna hafi verið skipuð í júní 2019 og hefur síðan komið saman á átján bókuðum fundum.

„Nefndin skipaði fimm starfshópa sem fjölluðu um málaflokka sveitarfélaganna og lögðu fram efni og upplýsingar í greiningu og tillögugerð. Nefndin skilaði áliti sínu til sveitarstjórna þann 9. mars síðastliðinn. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á www.thingeyingur.is,“ segir í tilkynningunni.

Atkvæðagreiðsla um sameiningu var síðan samþykkt á sveitarstjórnarfundum í vikunni þar sem bæði sveitarfélögin skoruðu jafnframt á ríkisstjórnina og Alþingi að bæta samgöngur innan svæðisins:

„Að sérstök áhersla verði lögð á bundið slitlag á héraðs- og tengivegum. Að flýta breikkun einbreiðra brúa yfir Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum á þjóðvegi 1 og á tengingum milli byggða, til dæmis um Engidalsveg. Þá leggja sveitarstjórnir áherslu á að öruggar samgöngur verði tryggðar innan svæðisins og við nærliggjandi þjónustukjarna, svo sem um Ljósavatnsskarð og að það verði hugað að endurskipulagningu almenningssamgangna þannig að þær þjóni hagsmunum íbúa svæðisins.

Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit hafa átt í miklu samstarfi sín á milli síðustu ár. Sveitarfélögin eiga formlegt samstarf um skipulags- og byggingarmál og brunavarnir ásamt ýmsum samstarfsverkefnum. Í Skútustaðahreppi búa um 500 íbúar og í Þingeyjarsveit tæplega 900 íbúar,“ segir í tilkynningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×